Að geðjast öllum

Listamaðurinn Króli kom fram á Vísi nýlega og sagði það æðislega tilfinningu að þurfa ekki að geðjast öllum. Þetta er eitthvað sem fólk lærir með reynslu og hækkandi aldri og fannst mér þetta hugrakkt af Króla, enda ungur maður þar á ferð.

Það er gömul saga og ný að þau sem reyna að geðjast öllum enda á því að geðjast engum. Í pólitík er þetta sérstaklega mikilvæg lexía. Það er freistandi að segja hluti svo fólki líki vel við mann. Stjórnmálamenn sem fylgja sannfæringu sinni og lífsgildum öðlast meiri virðingu en þeir sem elta bara háværa minnihlutann og byggja stefnu sína á niðurstöðum skoðanakannana. Það er auðvitað mikilvægt og virðingarvert að geta breytt um skoðun með breyttum tímum og nýjum upplýsingum en þegar skoðanir fólks sveiflast eins og lauf í vindi er ómögulegt að treysta viðkomandi.

Þetta sjáum við líka hjá fyrirhuguðum forsetaframbjóðendum. Þeir hafa tekið til þess ráðs að fjarlægja færslur af netinu, neita að svara fyrir gömul ummæli og skoðanir og hafa sagst ætla að bjóða sig fram því ósætti milli ólíkra stuðningsmanna í Eurovision hafi bara verið of erfitt áhorfs. Þar sem meira framboð en eftirspurn virðist vera af forsetaefnum er freistingin eflaust mikil að reyna að þóknast sem flestum, enda sjá flestir frambjóðendur sig sem sameiningartákn þjóðarinnar. En hvernig á að velja á milli rétta á matseðli ef allir réttir bragðast eins?

Að lokum: Ég vil að sjálfsögðu að nýir frambjóðendur til embættis forseta Íslands haldi áfram að koma fram og að þeir beri fornafnið Katrín, eins og ég. Um leið vil ég hér með bjóða til sölu lénið katrin.is, sem er falt fyrir rétt verð.

Birtist í Viðskiptablaðinu 4.4.2024