Greitt yfir gögn

Það er auðvelt að týna sér í gögnum en það er flóknara og þarf útsjónarsemi að vinna úr gögnum og nýta þau til að taka réttar ákvarðanir. Það er líka auðvelt að fela gögn sem eru óþægileg. Loks er hægt að slá ryki í augu fólks með yfirflæði af gagnslausum gögnum. 

Gott dæmi um það er gagnahlaðborð Reykjavíkur eins og Björgvin Ingi Ólafsson benti á í fyrirlestri á Viðskiptaþingi nýlega. Þannig birtir Reykjavík ýmsar gagnslausar upplýsingar um fjölda fermetra í hverfum, meðalfjarlægð frá næstu sundlaug og fjölda gesta í rauntíma í sundlaugum. Þar má hins vegar ekki finna gögn sem nýtast borgurum eins og biðlista eftir leikskólum, fjölda myglaðra skóla eftir hverfum eða hversu oft sorpið er raunverulega hirt á ári.

Það rifjaði upp fyrir mér þegar ég var nýbyrjuð í borgarstjórn og sat í skóla- og frístundaráði. Eitt fyrsta sem ég gerði var að óska eftir upplýsingum um meðalaldur barna við innritun í leikskóla. Þetta eru gögn sem ég hefði haldið að borgin ætti að vera meðvituð á hverjum tíma og einn lykilmælikvarði fyrir meirihluta borgarstjórnar. Í stað þess að veita mér þessi gögn bað sviðsstjóri mig að draga fyrirspurnina til baka, það væri svo dýrt að fá hugbúnaðarfyrirtæki til að svara henni. Óþægilegt þegar fulltrúi minnihlutans biður um gögn sem skipta máli.

Á þessu sama Viðskiptaþingi mætti svo nýr borgarstjóri í panel, sá sem fór mikinn í kosningabaráttunni og boðaði breytingar. Í staðinn fyrir að taka gagnrýni Björgvins Inga og íhuga hvernig hann gæti breytt til hins betra þá fór í hann í vörn fyrir kerfið, sem hann tók ekki einu sinni þátt í að skapa, og kallaði gagnrýnina heimsmet í vitleysisgangi. Ansi þunnar breytingar það.

Birtist í Viðskiptablaðinu 29.2.24