Samdauna fólk

Eftir frábært sumar er farið að hausta. Fyrsta haustlægðin hefur gengið yfir með tilheyrandi fjúki á laufblöðum og trampólínum. Slíkar lægðir minna mann á að fljótlega leggst myrkrið yfir og frostið, sem getur líka verið notalegt. Eitt ágústkvöldið hugsaði ég um hversu mikil lífsgæði það væru ef öll sumur væru eins og júlí og ágúst. Við erum nefnilega fljót að gleyma því að fram í júlí sást varla til sólar. Við erum fljót að aðlagast.

Ég heyrði sögu af ungum manni sem vann dágóða fjárhæð í spilavíti. Starfsmaður greip hann og tilkynnti að hann þyrfti að greiða himinháan skatt af vinningnum. Lögin voru frekar óljós en honum þótti þetta heldur ósanngjarnt. Hann hafði tekið áhættu og lagt allt undir en ágóðinn fór að mestum hluta til ríkisins sem hann var staddur í.

Þetta minnti mig á hversu fljót við erum að verða samdauna því sem við þekkjum. Skattlagning á Íslandi er há en mörg hafa gefist upp á að berjast gegn því. Reglugerðirnar eru gríðarlega íþyngjandi en samt tekst að byggja eitthvað upp með ærnum tilkostnaði og hið ósýnilega – allt sem var ekki byggt – spáir enginn í.

Það er raunar hið ósýnilega sem okkur vantar meira af. Fleiri fyrirtæki eins og Kerecis sem tekst að lifa af upphafsárin, jafnvel með því að reiða sig frekar á erlenda bakhjarla en innlenda. Fleiri íbúðir sem aldrei verða byggðar. Betri innviði sem ekki var innistæða fyrir vegna sóunar á öðrum sviðum. Fyrir eina opinbera framkvæmd, sem fór tvöfalt fram úr áætlunum og stjórnmálamaður vígir með bros á vör og uppsker atkvæði fyrir, misstum við af leikskólaplássum, sorphirðudögum og skattalækkunum. En af því að við erum samdauna tökum við ekki eftir því.

Birtist í Viðskiptablaðinu 14.9.2023