Báknið burt, einstaklinginn inn

Síðastliðið ár hefur enginn skortur verið á dæmum um yfirgang báknsins. Eitt dæmið er kæra ÁTVR á aðila út í bæ sem samkvæmt ÁTVR hefur brotið lög um verslun með áfengi á Íslandi. Héraðsdómur vísaði málinu frá, enda var stofnunin að taka sér vald sem hún hefur ekki.

Annað dæmi er þegar báknið braust inn á heimili fólks til að leita að refum sem þar gætu leynst í góðu yfirlæti. Matvælastofnun tókst að útvega sér leitarheimild og fékk til fylgis með sér lögreglumenn sem voru vonandi ekki dregnir frá öðrum og brýnni verkefnum lögreglunnar.

Báknið skilgreindi Dr. Football sem fjölmiðil og sektaði hann sem slíkan fyrir að hafa brotið ýmsar reglur. Báknið sakaði Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins um brot á samkeppnislögum þegar þessi hagsmunasamtök höfðu bent á að vöruverð myndi hækka í kjölfar heimsfaraldurs, uppsafnaðrar eftirspurnar, hækkunar á hrávöruverði og hækkuðum flutningskostnaði. Verð stjórnaðist nú af tali hagsmunasamtaka en ekki framboði og eftirspurn, hrávöruverði, launakostnaði og fleiru.

Matvælaráðherra hefur nýlega kynnt drög að breytingum á reglugerð um hvalveiðar þar sem lagt er til að dýravelferðarfulltrúi verði í áhöfn hvers hvalveiðiskips. Báknið vex með hverri reglugerð og veitir hinu opinbera meiri og meiri völd til að hamla.

Allt er þetta fyrir löngu komið úr böndunum. Reglunum fjölgar endalaust og þar með opinberum embættismönnum sem sjá um að framfylgja þeim, jafnvel á frumlegan hátt. Þar sem áður ríkti traust á að fólk færi að lögum þá er í staðinn komin sú sannfæring hins opinbera að fólk sé sekt um lögbrot þar til sakleysi er sannað. Snúum sem fyrst frá þeirri hugsun. Reglum þarf að fækka, báknið þarf að minnka, traustið þarf að aukast.

Birtist í Viðskiptablaðinu 14.7.2022