Allir vita allt og enginn er að gera sitt besta

Konur eru konum bestar er verkefni nokkurra kvenna sem hafa safnað 18 milljónum til góðgerðamála á síðustu árum. Í ár safna þær fyrir Ljónshjarta, samtök til stuðnings ungs fólks sem misst hefur maka og börnum þeirra. Áður hafa þær styrkt Kvennaathvarfið, Menntunarsjóð Mæðrastyrksnefndar, Kraft, Bjarkarhlíð og Stígamót.

Fjáröflunin felst í sölu bola. Að þessu sinni skrýddi bolinn setningin “Enginn veit neitt og allir eru bara að gera sitt besta.” Kristín Dóra Ólafsdóttir, myndlistakona og listakennari er höfundur setningarinnar. Boðskapurinn er að hennar sögn sjálfsmildi og að koma vel fram við náungann. Að fólk vandi sig og standi saman. Setningin hefur birst í verkum hennar í sex ár.

Það er erfitt að sjá hvernig fólk sem lætur gott af sér leiða með þessum hætti getur stuðað aðra. Eða setning með fallegum boðskap. En reynslan sýnir okkur, því miður, að það er til fólk sem getur fundið neikvæðni í nánast hverju sem er. Jafnvel því að hjálpa öðrum. Þannig voru forsvarskonur átaksins gagnrýndar fyrir að vera of einsleitar, að setningin gæfi til kynna að konur vissu ekki neitt og svo mætti lengi telja. Aðallega voru það konur sem gagnrýndu þær. Í raun er það svolítið íronískt í ljósi þess að átakið heitir Konur eru konum bestar.

Gott væri ef fleiri í samfélaginu létu verkin tala og gott af sér leiða. Það er auðvelt að tuða á internetinu eða setja ramma á prófílmynd á Facebook, en meira mál að sinna einhverjum góðgerðamálum eða sjálfboðastarfi í nærumhverfi sínu. Eða hreinlega að styrkja góð málefni. Ef allir myndu gera sitt besta eins og konurnar í ofangreindu átaki væri samfélagið okkar betra

Birtist í Viðskiptablaðinu 6.10.2022