9 mánaða bið

Sonur okkar hjóna er nýorð­inn fimm ára. Hann er á leik­skóla í hverf­inu okk­ar. Dóttir okkar verður tveggja ára í júní, hún er í dag­vistun hjá dag­for­eldri. Hún hefur ekki enn fengið úthlut­uðu plássi á leik­skóla en ég bind vonir við að hún fái pláss þar í haust í kringum tutt­ugu og sjö mán­aða.

Frá því að fæð­ing­ar­or­lofi lýk­ur, í síð­asta lagi við níu mán­aða aldur barns, tekur við ákveðið tóma­rúm. Reykja­vík­ur­borg lofar öllum börnum plássi á leik­skóla frá átján mán­aða aldri. Sú er ekki alltaf raunin og mörg börn kom­ast mun síðar að. Ein ástæða er að ekki fá allir leik­skóla­pláss í sínum hverf­um. 

Það er ekki raun­veru­legur val­kostur fyrir alla að hafa börn sín í leik­skóla í öðru hverfi. Í okkar fjöl­skyldu er til að mynda grunn­for­senda að við hjónin getum gengið með börnin í dag­vist­un, þar sem við reynum að ganga eða hjóla sem mest til vinnu. For­eldrar sem búa í barn­mörgum hverf­um, eða í hverfum með vin­sælum leik­skól­um, þurfa að bíða leng­ur. Þá skiptir máli hvenær árs­ins börn eru fædd. Mesta hreyf­ingin á leik­skóla­plássum er á haustin þegar elstu börnin hefja nám í grunn­skóla.

Umfram­kostn­aður

Mik­il­vægt er að tryggja jafn­ræði þeirra sem styðj­ast við dag­for­eldra og þeirra sem fá pláss á leik­skóla. For­eldrar barna hjá dag­for­eldrum bera tölu­vert meiri kostn­að.

Dóttir okkar verður tutt­ugu og sjö mán­aða í haust þegar aðlögun hefst á leik­skól­an­um. Þangað til verður hún hjá dag­for­eldr­inu. Það er ekk­ert þak á gjald­skrá dag­for­eldra en nokkur sann­girni virð­ist ríkja víð­ast hvar. Okkar dag­for­eldri tekur sex­tíu og sjö þús­und krónur á mán­uði. Við erum ánægð með dag­for­eldrið svo við borgum það með glöðu geði.

Leik­skóla­pláss kostar rúmar tutt­ugu og fimm þús­und krónur á mán­uði. Dóttir okkar verður níu mán­uði hjá dag­for­eldr­inu fram yfir átján mán­aða ald­ur­inn, þann aldur sem borgin lofar leik­skóla­plássi. Við greið­um, að teknu til­liti til sum­ar­frís, átta mán­uðum lengur til dag­for­eldris en for­eldrar barna sem eru fædd á heppi­legri tíma á árinu, búa í réttu hverfi eða hafa tæki­færi til að vista barn sitt í öðru hverfi. 

Þessa átta mán­uði munum við því greiða rúmum þrjú hund­ruð og þrjá­tíu þús­und krónum meira en þessir for­eldr­ar. Þetta er ekki jafn­ræði. Mik­il­vægt er að auka nið­ur­greiðslu til dag­for­eldra svo allir for­eldrar átján mán­aða barna búi við sömu kjör. 

Eflum stétt dag­for­eldra

Enda­laus lof­orð um yngri vist­un­ar­aldur á leik­skóla ásamt aðstöðu­leysi eykur óvissu um rekstr­ar­grund­völl dag­for­eldra, enda hefur þeim fækkað um 30% á síð­ustu árum. Fæð­ing­ar­or­lofi lýkur við níu mán­aða aldur en leik­skól­inn tekur við í fyrsta lagi níu mán­uðum síð­ar. 

Það tekur tíma að byggja nýjar deildir og ung­barna­leik­skóla. Meðan ekki er búið að manna leik­skól­ana eins og þeir eru í dag þarf eitt­hvað stór­kost­legt að ger­ast til að hægt verði að manna þessar nýju deild­ir. Einnig kjósa sumir for­eldrar að hafa ung börn sín á minni stöðum með færri börnum og stöðugra umhverfi. 

Nauð­syn­legt er að styrkja stétt dag­for­eldra, ekki útrýma henni. Að hjálpa dag­for­eldrum að koma sér upp aðstöðu. Auka þarf nið­ur­greiðslu til dag­for­eldra, bæði til að stuðla að jafn­ræði en einnig til að treysta rekstr­ar­grund­völl þeirra.

Birtist á Kjarnanum 31.3.2018

Skattþrepin óteljandi

Skattkerfið er ætlað til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Það á að vera einfalt, gagnsætt, sanngjarnt og skilvirkt. Þrepaskipt tekjuskattkerfi uppfyllir engin þessara skilyrða. Það er flókið, ógagnsætt, ósanngjarnt og óskilvirkt.

Þrepaskipting skatta eykur ósanngirni skattkerfisins þar sem sífellt meira er dregið af tekjum eftir því sem þær aukast.

Misjöfn skattþrep eru óþörf

Persónuafsláttur er skattaafsláttur sem er ávallt sama upphæð, óháð tekjum. Tekjuskattur skiptist í þrjú mishá þrep og miðast við upphæð tekna.

Misjöfn skattþrep eru í raun óþörf. Persónuafsláttur gerir skattþrepin óendanlega mörg jafnvel þó þrepaskipting skatta væri aflögð.

Gerum ráð fyrir einu skattþrepi auk hámarks útsvars, 37,2%. Kona með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir þá 20% skatt eftir að persónuafsláttur hefur verið dreginn frá. Sé hún með 400 þúsund verður skatturinn 24% en 27% af 500 þúsund króna tekjum. Skattprósentan hækkar um heil sjö prósentustig meðan heildarlaun hækka um 200 þúsund krónur.
Skattaprósentan mun því áfram hækka í þrepum eftir því sem tekjur hækka, þrátt fyrir að skattþrepin sjálf séu aflögð.

Eitt þrep sanngjarnt

Sú sem aflar hærri tekna er ekki einungis að leggja til fleiri krónur heldur er skattprósenta hennar einnig hærri.
Færri skattþrep draga úr ósanngirni skattkerfisins, draga úr því að sífellt sé tekið meira úr launaumslaginu eftir því sem meira er aflað og gefa þannig aukinn hvata til þess að draga björg í bú.

Tekjuskattskerfi með einu þrepi er einnig gagnsærra, skilvirkara og ódýrara í rekstri fyrir hið opinbera.
Um áramótin mun miðþrep tekjuskattsins falla niður. Enn má þó gera betur. Við erum á réttri leið.

Birtist á Vísi 19.10.2016