Tæknibyltingu í grunnskóla

Börn eru flest neytendur tækni en ekki skaparar hennar. Það má segja að þegar kemur að tækni kunni börn að lesa en ekki skrifa. Með því að kenna forritun og tölvunarfræði á grunnskólastigi mætti snúa þessu sambandi við og gera börn betur í stakk búin til að takast á við framtíðina.

Forritunarmál eru einu tungumálin sem tölvur skilja. Til að geta talað við tölvur þarf að læra forritun og forritunarkunnátta því hluti af læsi 21. aldar. Grunnskólinn hefur lykilhlutverki að gegna þegar kemur að því að vekja áhuga hjá börnum og skapa grunn sem nýtist þeim til framtíðar. Að sameina leik og lærdóm með efni sem vekur áhuga og höfðar til barna. Við þurfum að þroska hæfileika barnanna til að greina vandamál, brjóta þau niður í smærri verkefni og leysa þau, m.a. með tækni. Að nota tækni sem verkfæri. Tæknilæsi og færni til að skilja hvernig tölvur virka verður sífellt mikilvægara.

Ekki munu öll börn verða forritarar eða tölvunarfræðingar, ekki frekar en stærðfræðingar. Samt kennum við stærðfræði í grunnskólum til að búa til grunn sem þau búa að í verkefnum framtíðarinnar. Til þess að vekja áhuga fleiri á þessu sviði. Aukinn skilningur á tækni og beitingu hennar efla kerfisbundna og gagnrýna hugsun á mörgum sviðum. Þannig opnast dyr að nýjum og eftirsóknarverðum störfum í framtíðinni.

Tölvur og vélmenni eru orðin hluti af daglegu lífi og munu verða enn veigameiri þáttur. Það er mikilvægt að kunna að nota þessi tæki en líka að hafa grunnhugmynd um hvernig hún virkar.

Ég mun því á næsta fundi borgarstjórnar leggja fram tillögu um innleiðingu forritunarkennslu í grunnskólum. Við viljum að börnin okkar verði leiðandi í fjórðu iðnbyltingunni. Það er spennandi og framsækið verkefni.

Birtist í Fréttablaðinu 10.12.2018

Látum draumana rætast í menntakerfinu

Látum draumana rætaster yfirskrift menntastefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2030. Við munum ekki geta látið drauma alls ungs fólks rætast án þess að efla list- og verkgreinar í grunnskólum. 

Samkvæmt rannsóknum hérlendis fer áhugasvið og námsval nemenda oft ekki saman. Þetta birtist í því að nemendur hefja ekki endilega nám sem hentar þeim og þeim er ekki beint í það. Í dag geta börn einungis nefnt fjórar til sex námsleiðir að meðaltali þegar spurt er um aðrar leiðir í námi en hefðbundið nám til stúdentsprófs. Í boði eru um eitt hundrað leiðir.

Það blasir við að börnum eru ekki kynntir nægilega vel þeir möguleikar sem eru í boði. Að einhverju leyti er orsökin sú að grunnskólum hefur reynst erfitt að uppfylla gildandi viðmið um list- og verkgreinar aðalnámskrár. Því er mikilvægt að tryggja skólastjórnendum allt sem til þarf til að uppfylla þessi viðmið; aðstöðu og hæft starfsfólk. Einnig kann að vera að forgangsraða þurfi fé betur til þessara mála.

Iðnaður skapar fjórðung landsframleiðslu Íslendinga og rúmlega þriðjung gjaldeyristekna. Iðn-, tækni- og verkmenntun er þó enn óæðri í löggjöf, hugsun og framkvæmd. Aðeins sextán prósent nýnema á framhaldsskólastigi skrá sig í iðngreinar á sama tíma og mikil skortur er á iðnmenntuðu vinnuafli. Þessi skekkja milli menntunar og eftirspurnar eftir vinnuafli er þegar mikil og mun trúlega verða enn meiri. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem leggur sveinspróf að jöfnu við stúdentspróf sem inntökuskilyrði í háskóla. Þannig opnast dyr iðnmenntaðra að háskólanámi og ímynd náms og starfa sem tengjast iðnmenntun styrkist. 

Þá samþykkti skóla- og frístundaráð nýlega að auka vægi þessara greina í grunnskólum í Reykjavík. Samþykktin er ágætis byrjun en mikilvægt er að fylgja málinu vel eftir. Grunnskólar í Reykjavík eru ekki að standa sig nægjanlega vel í að kynna aðrar námsleiðir fyrir börnunum okkar. Við getum ekki aukið áhuga barna á einhverju sem þau þekkja ekki. 

Efling list- og verkgreina er mikilvægt skref í átt að markmiðinu um að láta draumana rætast.

Birtist í Fréttablaðinu 8.11.2018 

22 milljónir á dag ... alla daga ársins

Meirihluti borgarstjórnar í Reykjavík felldi nýlega tillögu mína um lægri skatta á atvinnuhúsnæði. Skattar og gjöld borgarinnar eru flest í lögbundnu hámarki. Samt hækkuðu skuldir á síðasta kjörtímabili um 36 milljarða eða tæp 60%. Nýr meirihluti siglir áhyggjulaus sömu leið,  því skuldir borgarsjóðs hafa vaxið um 650 milljónir á mánuði frá áramótum, eða um rúmar 22 milljónir á hverjum einasta degi það sem af er ári. Þrátt fyrir mikla árlega tekjuaukningu aukast útgjöldin enn hraðar og þeir sjá sem vilja, að rekstur borgarinnar er ekki sjálfbær. 

Óbein skattheimta

Hinir fjölmörgu og stóru tekjustofnar duga samt ekki borginni. Í stað þess að lækka gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur og rýmka þar með fjárráð borgarbúa er áætlað að borgin greiði sér 14 milljarða króna í arð á næstu fjórum árum. Gjaldskrárhækkanir fyrri ára eru með óbeinum hætti orðnar tekjustofn borgarinnar.

Eru þá ótaldir íþyngjandi eignaskattar sem hækka leiguverð og minnka áhuga fyrirtækja og fólks á að búa og starfa í borginni. Hækkun eignaverðs skilar sér því miður ekki sjálfkrafa í veski borgarbúa í lok mánaðar.

Toppurinn á ísjakanum?

Nálgun Reykjavíkurborgar ætti að vera að skilgreina lögbundin verkefni sín, kostnaðargreina þau og afla síðan þeirra tekna sem til þarf. Meirihlutinn í borginni snýr þessu alveg á haus. Spáð er hversu mikið skattgreiðslur borgarbúa og fyrirtækja aukast og hversu mikið má auka skuldir. Þeim fjármunum er síðan ráðstafað í verkefni sem sátt ríkir um en ekki síður hin, sem alls engin sátt ríkir um. Nokkur þeirra hafa verið í umræðunni síðustu vikur en skyldu þau vera fleiri? 

Nauðsynlegt er að tryggja að umsvif borgarinnar fari ekki úr böndunum. Fylgjast þarf með að grunnþjónustu sé sinnt vel en fjármunum ekki ráðstafað óvarlega. Þannig mætti sleppa ýmsum fasteignaverkefnum og spara umtalsverða fjármuni. Við höfum upplifað góðæri síðustu ár. En þessi ósjálfbæra útgjalda- og skuldaaukning kemur í bakið á borgarbúum þegar hægir á hagkerfinu. 

Skattheimtu verður aðstilla í hóf svo fólk haldi eftir þeim fjármunum sem ekki er brýn þörf á í samneysluna. Nú þegar hillir undir samdrátt í hagkerfinu eru skattalækkanir besta kjarabótin, því fáir fara betur með skattfé en greiðendur þess.

Birtist í Fréttablaðinu 25.10.2018

Lægri skatta í Reykjavík

Fasteignaskattar í Reykjavík munu hækka að meðaltali um tæp átta prósent árlega næstu fjögur árin, ef marka má fjárhagsáætlun borgarinnar. Skatttekjur borgarinnar á hvern Reykvíking munu slá ný met árlega á komandi árum. Hækkanir síðustu ára hafa að litlu leyti verið dregnar til baka. Þessar hækkanir eru langt umfram launaþróun, hagvöxt og tekjur fyrirtækja í borginni.

Fasteignaskattar fyrirtækja

Fasteignaskattar fyrirtækja hafa lengi verið í lögfestu hámarki í Reykjavík eða 1,65%. Þetta þýðir að árlega þarf að greiða 1,65 milljónir af 100 milljóna eign. Það gefur auga leið að slíka ofurskattheimta er afar íþyngjandi og skerðir samkeppnisstöðu fyrirtækja í borginni gagnvart fyrirtækjum í sveitarfélögum með lægri skattheimtu. 

Í sáttmála meirihluta borgarstjórnar felst ákveðin viðurkenning á þessari ofurskattheimtu en þar er gert ráð fyrir að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði lækki úr 1,65% í 1,60% í lok kjörtímabils. Sé litið til fasteignamats fyrir árið 2019 hækkar atvinnuhúsnæði um heil 16,6%. Það gefur auga leið að nú þegar blikur eru á lofti í efnahagslífinu eru tekjur fyrirtækja almennt ekki að hækka svo mikið milli ára.

Ef lækkunin kæmi til framkvæmda á næsta ári myndu skattar borgarinnar á atvinnuhúsnæði, samkvæmt spá Greiningardeildar Arion banka, verða rúmlega 420 milljónum króna lægri en ella. Þrátt fyrir það yrðu þær tæplega 1,6 milljörðum króna hærri en árið áður vegna ofangreindrar hækkunar fasteignamats. Í sömu greiningu kemur fram að horfur eru á að fasteignaskattar geti jafnvel numið 70% kostnaðar leigufélaga á næsta ári. Ekki þarf að taka fram hvaða áhrif þetta hefði á leiguverð í borginni, en vandi á leigumarkaði hefur verið mikill síðustu árin.

Skattar borgarinnar þurfa að lækka strax

Gert er ráð fyrir að fasteignaskattar í Reykjavík hækki að meðaltali um tæp átta prósent til ársins 2022. Slíkar skattahækkanir tengjast á engan hátt afkomu fyrirtækja í borginni og gera hana minna aðlaðandi til búsetu eða reksturs. 

Því mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja til í borgarstjórn að fasteignaskattar á fyrirtæki lækki strax á næsta ári um 0,05%. Nú er rétti tíminn, lækkum skatta í borginni íbúum og fyrirtækjum hennar til heilla.

Birtist í Morgunblaðinu 11.10.2018

Valfrelsi í skólamálum

Reykjavíkurborg greiðir 75% af meðalrekstrarkostnaði grunnskóla landsins á nemanda með barni í sjálfstæðum skóla. Þetta veldur því að sjálfstæðu skólarnir verða að innheimta skólagjöld. Það er sannarlega ekki á færi allra foreldra að greiða skólagjöld og því veldur þetta ákveðinni stéttaskiptingu meðal barna. Eðlilegra væri að líta á þetta út frá réttindum barna til að sækja hvaða skóla sem er. Að barn hefði rétt á því að fá sama framlag óháð því hvaða skóla það og foreldrar þess kjósa að velja.

Börn eru jafn ólík og þau eru mörg. Mismunandi áherslur og lausnir í menntamálum henta hverju þeirra. Sjálfstæðir skólar bæta flóru skóla Reykjavíkur svo um munar. Þeir veita foreldrum valkosti í skólamálum og tækifæri til að velja milli ólíkra áherslna í uppeldi og menntun barna sinna.

Eykur gæði á öllum sviðum

Fjölbreytt námsframboð og stefnur í kennslu skapa eðlilega samkeppni milli skóla. Aukin samkeppni eykur gæði á öllum sviðum, líka í menntamálum. Mikilvægt er að horfa ekki á sjálfstæða skóla sem einhvers konar ógn heldur sem tækifæri til að bæta menntun barna í borginni. En það eru ekki bara skólarnir sem njóta góðs af samkeppni. Fjölgun sjálfstæðra skóla er mikilvægur þáttur í að auka fjölbreytni þegar kemur að atvinnumöguleikum kennara. Þannig er líka verið að gera kennarastarfið að vænlegri valkosti.

Jöfn tækifæri

Tillaga okkar í Sjálfstæðisflokknum, sem verður tekin fyrir á næsta borgarstjórnarfundi, snýr að því að öll börn í Reykjavík fái jöfn fjárframlög frá borginni óháð því hvaða skóla þau sækja. Í staðinn munu sjálfstæðu skólarnir ekki rukka skólagjöld. Þannig má tryggja jöfn tækifæri allra barna til að sækja hvaða skóla sem hentar, óháð efnahag foreldra. Það er sanngirnis- og réttlætismál fyrir börnin í borginni að tillagan verði samþykkt.

Birtist í Fréttablaðinu 25.9.2018

Börnin 128

Í haust munu 128 börn í Reykjavík ekki fá þau leikskólapláss sem hafði verið lofað. Þá á eftir að ráða starfsfólk í 84 stöðugildi. Ástandið er vissulega betra en á síðasta ári og því ber að fagna. Staðreyndin er þó sú að um 9% barna sem var lofað plássi komast ekki að. Það er óásættanleg staða. Líklega dugir foreldrum þessara barna skammt að vita að staðan hafi batnað.

Foreldrar munu því þurfa að gera aðrar ráðstafanir, með hjálp vina og vandamanna eða hreinlega með því að fresta endurkomu á vinnumarkað. Hluti þessara barna eru hjá dagforeldrum eða í ungbarnaleikskólum ef þau eru það lánsöm að halda plássum sínum, sem losna þá ekki fyrir önnur börn sem bíða eftir að komast að. Foreldrar þeirra þurfa þá einnig að gera ráðstafanir, mögulega að vera heimavið lengur en til stóð. Í mörgum tilfellum þýðir þetta umtalsvert tekjutap eða kostnaður við dýrari úrræði. Staðan bitnar því miður helst á tekjulægri foreldrum.

Jafnréttismál

Rannsóknir sýna að barneignir hafa jákvæð áhrif á laun karla en neikvæð á laun kvenna. Mæður barna eru mun lengur frá vinnumarkaði en karlar eftir barneignir. Konur eru því, enn sem komið er, mun líklegri til að vera heima með börnin komist þau ekki að í dagvistun. Lengri fjarvera frá vinnumarkaði hefur einnig áhrif á starfsframa. Skilvirkt kerfi dagvistunar er því ekki síst jafnréttismál.  Það er því mikilvægur þáttur í að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði að Reykvíkingar hafi greiðan og tímalegan aðgang að dagvistun.

Þá má ekki gleyma hversu mikilvægt það er fyrir börnin sjálf að komast tímanlega í leikskóla, fyrsta skólastigið, að fá þá örvun sem felst í því að eyða deginum með fagfólki, hafa aðgang að góðum útisvæðum og vera innan um börn á sama aldri.

Árangur hefur náðst en það þarf að gera miklu betur. Það gengur ekki að 9% barna fái ekki leikskólaplássin sín, að líf þessara fjölskyldna og aðstandenda séu í ákveðnu uppnámi. Að líf þeirra sem bíða eftir plássum hjá dagforeldrum og í ungbarnaleikskólum riðlist líka með þeim afleiðingum, meðal annars, að tækifæri kvenna á vinnumarkaði skerðist. 

Þetta er langtímaverkefni sem þarf samt að vinnast hratt og það þarf að halda áfram þétt á spöðunum. Við megum aldrei sofa á verðinum.

Birtist í Fréttablaðinu 25.8.2018

Ráðdeild í Reykjavík?

Þegar vel árar eykst eigið fé landsmanna og skuldir minnka. Þar með lækkar fjármagnskostnaður og svigrúm skapast til fjárfestinga eða sparnaðar. Ekki er síður mikilvægt að opinberir aðilar standi sig og sýni ráðdeild. Að þeir lækki skuldir í uppsveiflu líkt og einstaklingar og fyrirtæki. Með því skapast svigrúm til að mæta mögru árunum og jafnvel til að minnka sveiflur, með framkvæmdum á samdráttartímum.

Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað um rúma 88 milljarða á síðustu 12 mánuðum. Skuldirnar lækkuðu því um rúmar 240 milljónir á dag eða um 10 milljónir á klukkustund. Ríkissjóður hefur náð góðum árangri á síðustu árum í lækkun skulda.

Skuldir vegna grunnreksturs Reykjavíkurborgar hækkuðu um tæpa 15 milljarða á síðasta ári. Skuldirnar hækkuðu því um rúmar 40 milljónir á dag eða 1,7 milljónir á klukkustund. Skuldir Reykjavíkurborgar hækkuðu um meira en 50% frá 2014 til 2017. Reykjavíkurborg hefur ekki náð góðum árangri í lækkun skulda á síðustu árum.

Er ekkert góðæri í Reykjavík?

Á sama tíma og ríkissjóður hefur lækkað skuldir sínar hratt hafa skuldir Reykjavíkurborgar aukist hratt. Þrátt fyrir mikinn vöxt tekna borgarinnar og hagfelldar aðstæður til niðurgreiðslu skulda. Nýverið samþykkti borgarráð hækkun á lánsfjáráætlun um 897 milljónir króna.

Heimild til lántöku á árinu 2018 er því 6,6 milljarðar króna. Nú er langt liðið á fordæmalaust hagvaxtarskeið hérlendis, þar sem tekjur borgarinnar hafa hækkað gríðarlega og skattheimta er með hæsta móti. Tíminn til að greiða niður skuldir er núna. Þrátt fyrir það hækka skuldir ár frá ári. Tekjur borgarinnar munu ekki vaxa út í hið óendanlega.

Skuldir ríkisins lækkuðu um 10 milljónir á klukkustund á síðustu 12 mánuðum en Reykjavíkurborg jók skuldsetningu um 1,7 milljónir á klukkustund á síðasta ári. Reykjavíkurborg sýnir ekki ráðdeild í fjármálum.

Birtist í Fréttablaðinu 17.8.2018

Framfarir í átt að frelsi

Bílar veita okkur lífsgæði, en auðvitað eru ekki bara kostir við þennan samgöngumáta. Langar raðir á helstu álagstímum þýða tapaðar samveru- og vinnustundir ásamt aukinni mengun. Á milli ferða bíða þeir óhreyfðir og taka pláss sem annars mætti nýta undir fleiri íbúðir, þjónustu eða almenningsrými. Á mörgum heimilum eru fleiri en einn bíll. Tugir þúsunda bíla standa óhreyfðir stóran hluta sólarhringsins í Reykjavík einni.

Í dag nýta borgarbúar leigubíla helst við sérstök tilefni, svo sem skemmtanir, en síður sem valkost í almenningssamgöngum. Kannski væri því öðruvísi háttað ef verðið væri lægra, þjónustan sveigjanlegri og samkeppnin meiri.

Nýlega skilaði starfshópur um endurskoðun á regluverki um leigubílaakstur niðurstöðum sínum. Meðal annars leggur hópurinn til að fjöldatakmarkanir akstursleyfa verði afnumdar. Leyfum hefur ekki fjölgað að ráði síðan 1995 þrátt fyrir mikla fólksfjölgun og fjölgun ferðamanna. Þá leggur hópurinn til að leggja af skyldu bílstjóra til að tilheyra leigubílastöð. Sú skylda er eitt af því sem kemur í veg fyrir að farveitur eins og Uber og Lyft ryðji sér til rúms hér á landi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur tekið ákvörðun um að hefja undirbúning frumvarps til laga um leigubíla fyrir haustþing 2019, byggt á niðurstöðum starfshópsins. Ég fagna því og tel mikið framfaraskref. Mikilvægt er að nýjum aðgangshindrunum verði ekki bætt við í stað þeirra sem teknar verða út.

Leigubílar koma ekki í staðinn fyrir alla einkabíla, ekki frekar en strætó eða hjól. Með auknu frelsi á leigubílamarkaði mætti gera notkun þeirra að raunhæfari valkosti. Þannig myndi samgöngukostnaður almennings lækka, ferðatími styttast, nýting á innviðum og umferðarmannvirkjum batna, mengun minnka og umferðaröryggi aukast.

Vonandi ganga þessar breytingar í gegn og auka lífsgæði Reykvíkinga til framtíðar.

Birtist í Fréttablaðinu 31.7.2018

Skuldaaukning 250 þúsund krónur á mann

Í aðdraganda kosninga kemur framtíðin, eðli máls samkvæmt, oft til tals. Þá er gjarnan rætt um hvaða umgjörð við hyggjumst búa börnunum okkar. Sennilega myndu fáir skrifa upp á það að skuldaklafi á þeirra herðar ætti að vera sérstakt baráttumál. Fjárhagsstjórn núverandi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur er hins vegar ávísun á þetta. Gaumgæfum nokkrar staðreyndir þessu til stuðnings.

Hærri tekjur

Tekjur af grunnrekstri borgarinnar hækkuðu um 27,7 milljarða að raunvirði fyrstu þrjú ár kjörtímabils núverandi meirihluta, eða um 31,4 prósent. Rekstrartekjur námu tæpum 116 milljörðum króna árið 2017. Það þýðir að borgin hefur um 300 milljónir króna til ráðstöfunar alla daga ársins. Meiri tekjur borgarinnar koma beint úr vösum borgarbúa.


Hærri skattar

Íbúar Reykjavíkur greiða hærra hlutfall af tekjum sínum til borgarinnar en íbúar annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt nýlegri skýrslu Samtaka atvinnulífsins. Íbúar á Seltjarnarnesi greiða 7,4 prósent tekna en íbúar Reykjavíkur 10,9 prósent.


Hærri skuldir

Samkvæmt ársskýrslu Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga (EFS) 2017 var skuldahlutfall borgarinnar 187 prósent ef skuldir Orkuveitu Reykjavíkur eru teknar með í reikninginn. Það þýðir að heildarskuldir og skuldbindingar eru næstum tvöfaldar heildartekjur borgarinnar. Landsmeðaltal var 153 prósent. Reykjavíkurborg nýtir sér heimild til að undanskilja Orkuveitu Reykjavíkur (OR) við útreikning á skuldahlutfalli. Spyrja má hvort það gefi rétta mynd af skuldastöðu borgarinnar.


Hærri skuldir á hvern íbúa

Í sömu skýrslu EFS var skuldum skipt niður á íbúa borgarinnar. Hvert einasta mannsbarn í Reykjavík skuldaði tæpar 2,4 milljónir. Skuldir á íbúa voru aðeins hærri í þremur öðrum sveitarfélögum, Fljótsdalshéraði, Norðurþingi og Reykjanesbæ. Núverandi meirihluti mun örugglega koma Reykvíkingum í fyrsta sætið ef svo fer fram sem horfir.


Þróun skulda

Landsmenn hafa unnið ötullega að því að lækka skuldir sínar og spara á árunum eftir hrun bankanna. Reykjavíkurborg fer gegn straumnum því skuldir vegna grunnreksturs borgarinnar hækkuðu um 45,2 prósent eða um 30,7 milljarða að raunvirði á fyrstu þremur árum kjörtímabilsins, frá árinu 2014 til 2017. Núverandi meirihluti skuldsetti hvern íbúa um tæpar 250 þúsund krónur fyrstu þrjú ár kjörtímabilsins.


Ráðdeild?

Í Reykjavík er skattheimta með hæsta móti. Skuldahlutfall borgarinnar að teknu tilliti til allra fyrirtækja í eigu hennar er langt yfir landsmeðaltali. Skuldir á íbúa eru með þeim hæstu á landinu. Hækkun skulda á íbúa fyrstu þrjú ár kjörtímabilsins voru 250 þúsund krónur, eins og áður segir. Ein milljón króna á fjögurra manna fjölskyldu. Allt gerðist þetta í fordæmalausu góðæri meðan tekjur hækkuðu yfir 30 prósent eða um tæpa 28 milljarða. Í góðæri sem mun ekki vara að eilífu.

Höfum hugfast að skuldadagar koma, það er eins víst og nótt fylgir degi. Tíminn til að víkja af vegi skuldasöfnunar er núna og þar með komum við í veg fyrir að skuldaklafanum verði velt á herðar komandi kynslóða; barnanna okkar. Í því felst velferð Reykvíkinga til framtíðar.

 

Birtist í Markaðnum 23.5.2018

Hvers vegna hjóla ég?

Hjólreiðar eru vaxandi samgöngumáti. Í síðustu könnun á ferðavenjum Reykvíkinga var hlutdeild hjólreiða sjö prósent ferða. Í Vesturbæ og Hlíðum fóru tíu prósent íbúa ferða sinna hjólandi.

En af hverju hjóla Reykvíkingar? Ímynd hjólreiða sem samgöngumáta virðist hjá sumum Reykvíkingum vera börn og sérvitringar. Við hjónin hjólum töluvert til vinnu og nýtum hjólin oftar en ekki til styttri ferða.

Ástæðan er hagkvæmni og jafnvel má segja að í mínum huga sé lúxus að hjóla. Að hjóla til vinnu á fallegum vormorgni eru lífsgæði, ekki kvöð. Þarna fást fimmtán mínútur til að hugsa málin, hlaða andlegar rafhlöður fyrir vinnudaginn, fá blóðið smá á hreyfingu og roða í kinnar. Engin bið í umferðarhnútum og ég legg við dyrnar á áfangastað án þess að leita að bílastæði. Ég get ekki hugsað mér betra upphaf á deginum.

Þeir sem vilja ekki hjóla þurfa ekki að hjóla. Þessi sjö prósent heildarferða okkar Reykvíkinga eru farnar utan umferðaræða, svo þær létta á bílaumferðinni. Með því að auka hlutfall annarra samgöngumáta en bílferða minnkar mengun og svifryk, sem fer oftar yfir viðmiðunarmörk í Reykjavík en í sumum erlendum stórborgum.

Sumir geta kosið að eiga einn bíl þegar þeir þyrftu ella tvo. Sumir kjósa að eiga engan bíl. Málið snýst um valkosti. Val til þess að ganga, hjóla, keyra eða nota almenningssamgöngur. Frelsi til að blanda þessu öllu saman eftir hentugleika.

Hjólreiðar eru hagkvæmar fyrir Reykvíkinga og öllum til bóta. Líka fyrir þá sem stunda þær ekki. Ég hyggst beita mér fyrir því að Reykvíkingar hafi val um fjölbreyttar samgöngur.

Birtist á Vísi 22.5.2018

Frelsisstefnan á áttavitanum

Enginn getur sest niður og skýrt frá öllu hann hyggst gera í nýju starfi næstu fjögur árin. Því er mikilvægt að í starfsviðtali komi fram fyrir hvað viðkomandi stendur og fyrir hvað hann brennur.

Að sama skapi er nauðsynlegt að kjósendur viti fyrir hvað frambjóðendur standa, svo þeir geti borið traust til ákvarðana þeirra þegar á hólminn kemur. Að frambjóðendur hafi lífsviðhorf sem þeir munu alltaf leita í til að lýsa sér veginn við ákvarðanir, jafnt stórar sem smáar.

Ég brenn fyrir frelsi. Frelsi til að allir njóti jafnra tækifæra. Mannréttindum og jafnræði. Að borgarbúar fái notið sín og borgin veiti þeim rými til að finna frumkvæði og framkvæmdaþrótti farveg. Jafnt í sínum störfum og frítíma.

Að ungt fólk hafi frelsi til að mennta sig, óháð aðstæðum. Að allir foreldrar hafi frelsi til að taka jafnan þátt á vinnumarkaði og hafi jafnan aðgang að dagvistun. Án þess að lenda í vandræðum með að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Grundvöllur jafnréttis er fjárhagslegt sjálfstæði. Því er ógnað þegar annað foreldri þarf að minnka þátttöku á vinnumarkaði.

Að grípa samborgara okkar ef eitthvað bjátar á og veita þeim hjálp við að verða aftur virkir þátttakendur í samfélaginu. Að veita borgarbúum frelsi til að velja samgöngukosti sem henta þeim og blanda þeim saman að vild.

Að skipuleggja borgina þannig að allir íbúar hennar finni sér búsetukosti við hæfi, hvort sem það er út frá staðsetningu, stærð eða öðrum háttum.

Við erum nefnilega öll ólík, höfum ólíkan smekk og ólíkar þarfir.

Að setja ekki of miklar skorður á íbúa og fyrirtæki, að setja ekki reglur um að allt sé bannað nema það sé sérstaklega leyft. Að sýna ráðdeild í rekstri borgarinnar og leggja ekki óhóflegar álögur á borgarbúa. Að berjast fyrir atvinnufrelsi og frelsi einstaklingsins, afnámi hafta, samvinnu og framfaramálum.

Ég er í Sjálfstæðisflokknum vegna þess að þau lífsviðhorf frelsis og ábyrgðar eru líka grundvöllur sjálfstæðisstefnunnar. Og ég er í framboði til borgarstjórnar vegna þess að þau eiga sérstakt erindi í Reykjavík, það er kominn tími á breytingar í borginni okkar.

Birtist á Vísi 11.5.2018

Ljósaperur og girðingar

Síðastliðin ár hefur Reykjavíkurborg staðið fyrir verkefninu Betri Reykjavík. Tilgangur verkefnisins er að gefa íbúum borgarinnar tækifæri til að setja fram hugmyndir um framkvæmdir í sínum hverfum og kjósa um þær. Ætla má að nokkur kostnaður sé við verkefnið. Það krefst óneitanlega utanumhalds, starfsmanna, vinnu við vefsvæði og kosningakerfi, auglýsingagerðar og fleira. Því er eðlilegt að það skili tilætluðum árangri.

En hver er árangurinn? Ef þær nítján hugmyndirnar sem koma til framkvæmda á árinu 2018 í hverfinu okkar eru skoðaðar sést að algengustu tegundir verkefna eru stígar (4), leiktæki (3), gróður (3), ruslatunnur og gámar (2) og lýsing (2). Meirihluti framkvæmda snýst sem sagt um venjubundna hluti sem borgin sér um, eða ætti að sjá um, nú þegar. Einnig er áhugavert að tæp 60% hugmyndanna sem koma til framkvæmda, eða ellefu af nítján, snúast um viðhald, að snyrta, bæta, fegra og endurbæta. Dæmi eru endurbætur á framhlið Laugardagslaugar, ný girðing við Bústaðaveg og ruslatunnur í Vogahverfi.

Ferlið gengur þannig fyrir sig að íbúar setja inn hugmyndir sem síðan er kosið um. Sumar hugmyndir komast síðan í aðra umferð, einskonar úrslit. Þar er kosið aftur, nú til að ákveða hvaða hugmyndir verða framkvæmdar. En í millitíðinni taka starfsmenn borgarinnar út allar þær hugmyndir sem þeim líst ekki á. Niðurstaðan virðist því að miklu leyti snúast um að kjósa um ýmiskonar smáverkefni og viðhald. Þannig hafa ágætis hugmyndir í efstu sætum fyrri umferðar síðustu árin aldrei komið raunverulega til álita fyrir íbúa hverfanna því þeim er kippt út. Þetta eru örlög spennandi hugmyndanna.

Er raunverulegt íbúalýðræði að íbúar fái að kjósa um viðhaldsverkefni og smáverk sem henta starfsmönnum borgarinnar? Fyrst tilgangurinn er þessi, væri mögulega hægt að leysa verkefnið Betri Reykjavík af hólmi með einföldu verkbeiðnakerfi? Lækka þannig kostnað, þar sem framkvæmdirnar snúast að miklu leyti um viðhaldsverkefni sem borgin ætti að sinna hvort sem er?

Birtist í hverfisblaði Laugardals, Bústaða og Háaleitis 1.5.2018

 

Perlan Öskjuhlíð

Við Reykvíkingar eigum frábært útivistarsvæði í miðbænum, Öskjuhlíð. En því miður virðist borginni ekki þykja vænt um þessa paradís. Lítið heyrist rætt um Öskjuhlíðina nema ef ske kynni þegar stórfellt skógarhögg hefur átt sér stað til að tryggja aðflug flugvéla til lendingar í miðbænum.

Í Öskjuhlíðinni þrífast allskonar misjafnir hlutir. Þar hefst fólk við, jafnvel í tjöldum og hreysum, ekki þarf að ganga lengi um til að finna ummerki um fíkniefnaneyslu og aðra hluti sem ættu ekki að eiga sér stað á útivistarsvæði.

Gönguhópar hafa tekið að sér að þrífa heilmikið rusl árlega og hjólreiðamenn og larparar hafa einnig tekið hlíðina fögru í fóstur. En betur má ef duga skal.

Gera þarf skóginn aðgengilegri, hreinsa þarf rjóður, setja upp leiktæki og grillstaði. Loka þarf fyrir umferð og fjarlægja vegslóða. Horfa má til hins frábæra útivistarsvæðis Akureyringa, Kjarnaskógar. Á góðviðrisdögum iðar allt af lífi þar, fjölskyldur koma saman til að njóta útiveru og borða gott nesti.

Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands er Öskjuhlíð fjölsóttasta útivistarsvæði landsins. Nú hefur uppbygging átt sér stað í Perlunni, þar má finna jöklasýningu og kaffihús. Tímabært er að gera Öskjuhlíðinni hátt undir höfði eins og hún á skilið. Í stað þess að borgin gleymi henni nema þegar tré þurfa að víkja fyrir flugvélum.

Birtist á Vísi 25.4.2018

9 mánaða bið

Sonur okkar hjóna er nýorð­inn fimm ára. Hann er á leik­skóla í hverf­inu okk­ar. Dóttir okkar verður tveggja ára í júní, hún er í dag­vistun hjá dag­for­eldri. Hún hefur ekki enn fengið úthlut­uðu plássi á leik­skóla en ég bind vonir við að hún fái pláss þar í haust í kringum tutt­ugu og sjö mán­aða.

Frá því að fæð­ing­ar­or­lofi lýk­ur, í síð­asta lagi við níu mán­aða aldur barns, tekur við ákveðið tóma­rúm. Reykja­vík­ur­borg lofar öllum börnum plássi á leik­skóla frá átján mán­aða aldri. Sú er ekki alltaf raunin og mörg börn kom­ast mun síðar að. Ein ástæða er að ekki fá allir leik­skóla­pláss í sínum hverf­um. 

Það er ekki raun­veru­legur val­kostur fyrir alla að hafa börn sín í leik­skóla í öðru hverfi. Í okkar fjöl­skyldu er til að mynda grunn­for­senda að við hjónin getum gengið með börnin í dag­vist­un, þar sem við reynum að ganga eða hjóla sem mest til vinnu. For­eldrar sem búa í barn­mörgum hverf­um, eða í hverfum með vin­sælum leik­skól­um, þurfa að bíða leng­ur. Þá skiptir máli hvenær árs­ins börn eru fædd. Mesta hreyf­ingin á leik­skóla­plássum er á haustin þegar elstu börnin hefja nám í grunn­skóla.

Umfram­kostn­aður

Mik­il­vægt er að tryggja jafn­ræði þeirra sem styðj­ast við dag­for­eldra og þeirra sem fá pláss á leik­skóla. For­eldrar barna hjá dag­for­eldrum bera tölu­vert meiri kostn­að.

Dóttir okkar verður tutt­ugu og sjö mán­aða í haust þegar aðlögun hefst á leik­skól­an­um. Þangað til verður hún hjá dag­for­eldr­inu. Það er ekk­ert þak á gjald­skrá dag­for­eldra en nokkur sann­girni virð­ist ríkja víð­ast hvar. Okkar dag­for­eldri tekur sex­tíu og sjö þús­und krónur á mán­uði. Við erum ánægð með dag­for­eldrið svo við borgum það með glöðu geði.

Leik­skóla­pláss kostar rúmar tutt­ugu og fimm þús­und krónur á mán­uði. Dóttir okkar verður níu mán­uði hjá dag­for­eldr­inu fram yfir átján mán­aða ald­ur­inn, þann aldur sem borgin lofar leik­skóla­plássi. Við greið­um, að teknu til­liti til sum­ar­frís, átta mán­uðum lengur til dag­for­eldris en for­eldrar barna sem eru fædd á heppi­legri tíma á árinu, búa í réttu hverfi eða hafa tæki­færi til að vista barn sitt í öðru hverfi. 

Þessa átta mán­uði munum við því greiða rúmum þrjú hund­ruð og þrjá­tíu þús­und krónum meira en þessir for­eldr­ar. Þetta er ekki jafn­ræði. Mik­il­vægt er að auka nið­ur­greiðslu til dag­for­eldra svo allir for­eldrar átján mán­aða barna búi við sömu kjör. 

Eflum stétt dag­for­eldra

Enda­laus lof­orð um yngri vist­un­ar­aldur á leik­skóla ásamt aðstöðu­leysi eykur óvissu um rekstr­ar­grund­völl dag­for­eldra, enda hefur þeim fækkað um 30% á síð­ustu árum. Fæð­ing­ar­or­lofi lýkur við níu mán­aða aldur en leik­skól­inn tekur við í fyrsta lagi níu mán­uðum síð­ar. 

Það tekur tíma að byggja nýjar deildir og ung­barna­leik­skóla. Meðan ekki er búið að manna leik­skól­ana eins og þeir eru í dag þarf eitt­hvað stór­kost­legt að ger­ast til að hægt verði að manna þessar nýju deild­ir. Einnig kjósa sumir for­eldrar að hafa ung börn sín á minni stöðum með færri börnum og stöðugra umhverfi. 

Nauð­syn­legt er að styrkja stétt dag­for­eldra, ekki útrýma henni. Að hjálpa dag­for­eldrum að koma sér upp aðstöðu. Auka þarf nið­ur­greiðslu til dag­for­eldra, bæði til að stuðla að jafn­ræði en einnig til að treysta rekstr­ar­grund­völl þeirra.

Birtist á Kjarnanum 31.3.2018

Skattþrepin óteljandi

Skattkerfið er ætlað til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Það á að vera einfalt, gagnsætt, sanngjarnt og skilvirkt. Þrepaskipt tekjuskattkerfi uppfyllir engin þessara skilyrða. Það er flókið, ógagnsætt, ósanngjarnt og óskilvirkt.

Þrepaskipting skatta eykur ósanngirni skattkerfisins þar sem sífellt meira er dregið af tekjum eftir því sem þær aukast.

Misjöfn skattþrep eru óþörf

Persónuafsláttur er skattaafsláttur sem er ávallt sama upphæð, óháð tekjum. Tekjuskattur skiptist í þrjú mishá þrep og miðast við upphæð tekna.

Misjöfn skattþrep eru í raun óþörf. Persónuafsláttur gerir skattþrepin óendanlega mörg jafnvel þó þrepaskipting skatta væri aflögð.

Gerum ráð fyrir einu skattþrepi auk hámarks útsvars, 37,2%. Kona með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir þá 20% skatt eftir að persónuafsláttur hefur verið dreginn frá. Sé hún með 400 þúsund verður skatturinn 24% en 27% af 500 þúsund króna tekjum. Skattprósentan hækkar um heil sjö prósentustig meðan heildarlaun hækka um 200 þúsund krónur.
Skattaprósentan mun því áfram hækka í þrepum eftir því sem tekjur hækka, þrátt fyrir að skattþrepin sjálf séu aflögð.

Eitt þrep sanngjarnt

Sú sem aflar hærri tekna er ekki einungis að leggja til fleiri krónur heldur er skattprósenta hennar einnig hærri.
Færri skattþrep draga úr ósanngirni skattkerfisins, draga úr því að sífellt sé tekið meira úr launaumslaginu eftir því sem meira er aflað og gefa þannig aukinn hvata til þess að draga björg í bú.

Tekjuskattskerfi með einu þrepi er einnig gagnsærra, skilvirkara og ódýrara í rekstri fyrir hið opinbera.
Um áramótin mun miðþrep tekjuskattsins falla niður. Enn má þó gera betur. Við erum á réttri leið.

Birtist á Vísi 19.10.2016