Samdauna fólk

Eftir frábært sumar er farið að hausta. Fyrsta haustlægðin hefur gengið yfir með tilheyrandi fjúki á laufblöðum og trampólínum. Slíkar lægðir minna mann á að fljótlega leggst myrkrið yfir og frostið, sem getur líka verið notalegt. Eitt ágústkvöldið hugsaði ég um hversu mikil lífsgæði það væru ef öll sumur væru eins og júlí og ágúst. Við erum nefnilega fljót að gleyma því að fram í júlí sást varla til sólar. Við erum fljót að aðlagast.

Ég heyrði sögu af ungum manni sem vann dágóða fjárhæð í spilavíti. Starfsmaður greip hann og tilkynnti að hann þyrfti að greiða himinháan skatt af vinningnum. Lögin voru frekar óljós en honum þótti þetta heldur ósanngjarnt. Hann hafði tekið áhættu og lagt allt undir en ágóðinn fór að mestum hluta til ríkisins sem hann var staddur í.

Þetta minnti mig á hversu fljót við erum að verða samdauna því sem við þekkjum. Skattlagning á Íslandi er há en mörg hafa gefist upp á að berjast gegn því. Reglugerðirnar eru gríðarlega íþyngjandi en samt tekst að byggja eitthvað upp með ærnum tilkostnaði og hið ósýnilega – allt sem var ekki byggt – spáir enginn í.

Það er raunar hið ósýnilega sem okkur vantar meira af. Fleiri fyrirtæki eins og Kerecis sem tekst að lifa af upphafsárin, jafnvel með því að reiða sig frekar á erlenda bakhjarla en innlenda. Fleiri íbúðir sem aldrei verða byggðar. Betri innviði sem ekki var innistæða fyrir vegna sóunar á öðrum sviðum. Fyrir eina opinbera framkvæmd, sem fór tvöfalt fram úr áætlunum og stjórnmálamaður vígir með bros á vör og uppsker atkvæði fyrir, misstum við af leikskólaplássum, sorphirðudögum og skattalækkunum. En af því að við erum samdauna tökum við ekki eftir því.

Birtist í Viðskiptablaðinu 14.9.2023

Rusl í Reykjavík

Sem íbúi í sveitarfélagi gerir maður ráð fyrir að fá örfáa hluti fyrir útsvarið sitt. Það er að ruslið sé hirt, götur séu mokaðar, börn fái pláss í leikskólum og komist svo í grunnskóla þegar fram líða stundir. Þau sem standa höllum fæti eiga líka að geta fengið aðstoð.

Í Reykjavík þar sem útsvarið er í hæstu lögleyfðu mörkum fer ekki mikið fyrir þessari þjónustu. Ég bý í Laugardalnum þar sem fasteignamatið og þar með skattarnir á íbúðinni minni hafa hækkaði úr öllu valdi síðan ég flutti í hverfið. Nýlega tók verktaki borgarinnar upp á því að fjarlægja flokkunartunnurnar okkar án fyrirvara og ég hafði því samband við borgina til að fá plast- og pappírstunnu í staðinn.

Ég bjóst við það gæti ekki tekið langan tíma en borgin ræður auðvitað ekki við að gera það fyrr en 2 mánuðum síðar. Á meðan þarf að fara með allt í grenndargámana sem eru svo ekki tæmdir eins og hefur verið fjallað um. Börnin mín fengu pláss í leikskóla langt gengin á þriðja ári og þegar þau loks urðu nógu gömul til að komast í grunnskóla er hann svo myglaður að skólastjórinn ásamt fleira starfsfólki hefur sagt upp störfum. Börnin geta aftur á móti ekki sagt upp grunnskólagöngunni og sitja því föst í mygluðum skólanum sem borgin hyggst ekki laga fyrr en á þarnæsta skólaári.

Borgin hefur staðið í gegndarlausri útgjaldaaukningu síðustu ár þrátt fyrir að tekjuhliðin hafi aldrei staðið betur þar sem tekjur af útsvari hækka í takt við batnandi efnahag fólks og svo hafa fasteignaskattar hækkað út í hið óendanlega. Maður spyr sig því hvert er allur þessi peningur að fara því sannarlega er það ekki í grunnþjónustuna. Kannski í kynnisferðir borgarfulltrúa?

Birtist í Viðskiptablaðinu 7.8.2023

Don’t shoot the messenger

Þegar ég sat í borgarstjórn afplánaði ég þrjú ár í íbúaráði Laugardals. Ég segi afplánaði því ég veit fátt ömurlegra en fundi sem hafa engan tilgang og skila engum niðurstöðum. Nýlegar fréttir af samskiptum borgarstarfsmanna staðfesta að íbúaráðin eigi hvorki að hafa tilgang né skila niðurstöðum.

Íbúaráðin voru endurvakin því Pírötum þykir mikilvægt að vera með íbúalýðræði þó það sé bara sýndarlýðræði. Píratar elska reyndar fátt meira en fundi með engan tilgang. Þannig má sjá á fundargerðum nýstofnaðs stafræns ráðs að þar er haldinn fundur eftir fund með engu á dagskrá nema kynningum; engar tillögur, engar niðurstöður, ekkert til að fylgja eftir. 

Frá fyrsta fundi var ljóst að íbúaráðin eru algjörlega valdlaus og þar með tilgangslaus. Þar eru kynningar og fulltrúar íbúa hvattir til að bóka sína afstöðu. Þær bókanir hverfa í kerfinu án frekari áhuga á þeim. Árlegur kostnaður við íbúaráðin hleypur á tugum milljóna. Formaðurinn sem í öllum tilfellum er duglegur frambjóðandi sem náði ekki árangri í kosningum fær á annað hundrað þúsund í laun á mánuði fyrir að stýra einum fundi. Að auki ná borgarfulltrúar sem sitja þar þriggja nefnda álagi og þar með 25% álagi á grunnlaunin. Það kom mér því stórkostlega á óvart að þegar niðurskurðartillögur voru kynntar nýlega vegna bágrar fjárhagsstöðu borgarinnar að sjá ekki íbúaráðin þar efst á lista.

Kannski finnst meirihlutanum mikilvægt að geta hakað í box um að upplýsingar hafi borist íbúum, þó bara þær upplýsingar sem hentar að þeim berist, eins og kom í ljós þegar starfsmenn íbúaráðanna og lýðræðisskrifstofu vörpuðu samskiptum sínum óvart á netið.

Íbúalýðræði í Reykjavík er bara plat. Þetta blasir við. Sem sendiboðinn bið ég um eitt: don’t shoot the messenger and don’t hate the player.

Birtist í Viðskiptablaðinu 26.06.2023

Mótmælafjör

Nú er vor í lofti og margir eflaust fegnir eftir langan og dimman vetur, að minnsta kosti í höfuðborginni. Sumarfríið er komið á dagskrá með tilheyrandi ferðalögum, útskriftarveislum, fótboltamótum og brúðkaupum.

Það er hægt að gera meira en að búa um stund í tjaldi, fellihýsi eða sumarbústað á íslensku sumri á meðan veður leyfir. Íslendingar nýta hið stutta sumar til margra gleðilegra hátíðarhalda, svo sem 17. júní, Hinsegin daga og bæjarhátíðir.

Hugmyndaflug Íslendinga lætur þar ekki staðar numið. Hvað er líka hægt að gera á meðan þingmenn eru í sumarleyfum, atvinnulífið í hægagangi og gúrkutíð hjá fjölmiðlum, blaðamenn sársvangir eftir einhverju til að skrifa og fjalla um? Jú, boða til mótmæla! En það hefur einn verkalýðsforinginn gert og hvatt öll til að mæta „sem hafa fengið nóg af einhverju sem betur má fara í okkar samfélagi”. Það er auðvitað hin prýðilegasta hugmynd. Mótmæli sameina alla þræði sumarvertíðarinnar: Útivist, hópefli, gönguferðir og auðvitað það að fá útrás af einhverju tagi.

Tímasetning mótmælanna er auðvitað ekki tilviljun, á sama tíma fer hér fram leiðtogafundur Evrópuráðsins og tilgangurinn að reyna að komast í heimspressuna og mála þá mynd að hér sé ekki gott að vera. Það er áhugavert í ljósi þess að það skaðar fyrst og fremst hagsmuni félagsmanna þess sem stendur fyrir mótmælunum að sverta ímynd Íslands á sviði viðskipta og ferðaþjónustu.

Staðreyndin er sú við búum á einum besta stað í heiminum samkvæmt öllum mælikvörðum um hagsæld og velferð. Hér er jöfnuður, jafnrétti, hátt menntunarstig og atvinnuþátttaka. Ég ætla að mótmæla því hversu hátt fuglarnir syngja klukkan 5 á morgnanna, vaxandi bákni, að Þróttur sé ekki í Bestu deild karla í fótbolta og að Ragnar Þór sé enn formaður VR.

Birtist í Viðskiptablaðinu 11.5.23

Njótum tækniframfara

Gervigreindarspjallmennið ChatGPT hefur heldur betur hrist upp í tækniheiminum undanfarið. Risinn Google hefur vaknað af værum svefni og í kjölfarið tilkynnt þróun á eigin gervigreindarspjallmenni, Bard. Lítið nýtt hefur komið frá Google upp á síðkastið svo þetta eru spennandi tímar fyrir okkur tækninördana.

Gervigreindarspjallmenni geta svarað spurningum og fyrirmælum nánast eins og rætt sé við alvitra manneskju. Þau geta gefið svör við öllu mögulegu, hjálpað forriturum að skrifa kóða og námsmönnum við ritgerðarskrif. Einhverjum þykir það ógnvænleg tilhugsun, að námsmenn dagsins í dag komist auðveldar í gegnum námið en við gerðum á okkar námsárum. En rétt eins og bíllinn leysti hestinn af hólmi getur tæknin bætt líf okkar. Ef við hræðumst ekki breytingar heldur nýtum þær getum við skapað virði fyrir allt samfélagið.

Skólar hafa breytt kennsluháttum til að koma í veg fyrir notkun spjallmennanna. Spjallmenninn eru þó bara tól til að hjálpa fólki að komast að betri niðurstöðu og vinna hraðar. Frekar en að óttast og banna hluti eigum við að njóta tækniframfaranna og læra að nýta þær til fulls. Rétt eins og tilkoma vasareiknis leiddi til breytinga í stærðfræðikennslu ætti að kenna nemendum að nota gervigreind við verkefnaskil.

Tæknin er ekki óskeikul og tölvur vita ekkert um siðferði og sannleika. Spjallmennin geta dælt út vanþekkingu og falsfréttum á áður óþekktum hraða. Gagnrýnin hugsun verður aldrei mikilvægari en með tilkomu gervigreindar. Gagnrýnin hugsun, lestur og lesskilningur eru undirstaða alls. Þau sem ekki geta lesið sér til gagns og spurt gagnrýnna spurninga munu ekki geta notað gervigreindar spjallmenni vel. Það er því mikilvægar nú en nokkurn tímann áður að hlúa að þessum þáttum svo við getum notið tækninnar í stað þess að óttast hana.

Birtist í Viðskiptablaðinu 16.2.23

Land litakóðanna

Litakóðar hafa birst víða undanfarið. Á veirutímum var smithættu komið fyrir í slíku kerfi. Sami litur virtist reyndar gilda fyrir allt landið þó engin veira hefði greinst í sumum landshlutum. Rauð viðvörun! Appelsínugul viðvörun! Hverju átti þetta að skila? Leiðbeiningum? Upplýsingum um hættuástand? Nei, vekja ákveðin hughrif. Á meðan einhver litur var á kortinu var veiran skæða á sveimi einhvers staðar.

Síðustu vikur hafa viðvaranir í ýmsum litum vofað yfir hátíðarhöldum. Nú reyndar ekki vegna veiru, sem betur fer, heldur veðurtengdar. Appelsínugul viðvörun á gamlársdag varð til þess að fólk þorði ekki úr húsi. Fólk fór ekki út til að kaupa flugelda af björgunarsveitunum og gamalt fólk sat heima yfir áramót í stað þess að fagna með fjölskyldum sínum. Það varð þó aldrei af þessu veðri hér á höfuðborgarsvæðinu og fólk fagnaði nýju ári í frosti og stillu.

Kannski markmiðið með litakóðunum sé ekki að veita upplýsingar. Þeir sem vilja upplýsingar lesa vitaskuld veðurspána. Kannski markmiðið sé miklu frekar að vekja upp ákveðin hughrif. Gult er verra en hvítt, appelsínugult er verra en gult og ef allt er orðið eldrautt þá fer maður væntanlega ekki út úr húsi.

Við erum að láta hræða okkur með ýmsum hætti með óskýrum en björtum litum og dramatískum ástandslýsingum. Kannski hafa veirutímar gert okkur móttækileg fyrir litakóðum. Þeir gerðu mig reyndar ónæma fyrir þeim. Ég les ennþá veðurfréttir og lít út um gluggann áður en ég vel fararskjóta.

Það á ekki að komast í vana að skerða frelsi fólks bara til öryggis, heldur þarf að byggja slíkar aðgerðir á góðum og aðgengilegum upplýsingum og ríkum hagsmunum. Kannski ætti áramótaheit stjórnvalda að vera að reyna stýra okkur minna til hlýðni með litakóðum?

Birtist í Viðskiptablaðinu 22.12.22

Einfarinn

Eins og margt fólk á mínum aldri byrjaði ég að hlaupa í janúar. Fékk mér þjálfara og fór að eltast við að ná betri tímum og komast lengra. Síðan þá hef ég eytt 138 klukkutímum á hlaupum. Oftast ein, stundum með einhverjum. Ég hef vakið upp gamalt keppnisskap og tekið þátt í almenningshlaupum og verið ósátt við að vinna ekki, samt skiptir þetta nákvæmlega engu máli. Hlaup eru að mínu mati hin fullkomna hreyfing einfarans. Í 138 klukkutíma hef ég, að mestu, verið ein með hugsunum mínum í umhverfi sem mér þykir vænt um.

Ég bý í Laugardal og eyði mestum tíma á hlaupum þar í kring. Ég er farin að þekkja hvernig kílómetrarnir skiptast og hverja beygju og holu í nágrenninu. Ég er búin að dást að trjánum laufgast og blómum springa út í Grasagarðinum og er líka búin að horfa á laufin fölna og fjúka út í buskann meðan ég berst við vindinn og rigninguna. Ég fylgdist með uppbyggingu nýs æfingasvæðis Þróttar frá hugmynd að opnun.

En á öllum þessum hlaupum, ein með hugsunum mínum, hef ég lært að meta litlu hlutina í lífinu. Að drekka morgunkaffið í sturtu og finna lyktina af pallaolíu og nýslegnu grasi, að sitja fundi þar sem þarf ekki mælendaskrá og fólk á einfaldlega eðlileg samskipti og kemst að niðurstöðu. Um daginn fór ég meira að segja á fund þar sem fundargestir sammæltust um að fundurinn væri óþarfur og slitu honum. Það var sannarlega einn sá besti fundur sem ég hef farið á. Svo komst ég líka að þeirri niðurstöðu að þegar ríkið selur eignir er mikilvægt að ferlið sé hafið yfir allan vafa, því ríkið verður að geta haldið áfram að losa um hluti sína í fyrirtækjum sem eiga að sjálfsögðu heima á frjálsum markaði, en ekki hlaupa í fang þeirra sem telja að ríkisrekstur sé lausn allra vandamála.

Birtist í Viðskiptablaðinu 17.11.2022

Allir vita allt og enginn er að gera sitt besta

Konur eru konum bestar er verkefni nokkurra kvenna sem hafa safnað 18 milljónum til góðgerðamála á síðustu árum. Í ár safna þær fyrir Ljónshjarta, samtök til stuðnings ungs fólks sem misst hefur maka og börnum þeirra. Áður hafa þær styrkt Kvennaathvarfið, Menntunarsjóð Mæðrastyrksnefndar, Kraft, Bjarkarhlíð og Stígamót.

Fjáröflunin felst í sölu bola. Að þessu sinni skrýddi bolinn setningin “Enginn veit neitt og allir eru bara að gera sitt besta.” Kristín Dóra Ólafsdóttir, myndlistakona og listakennari er höfundur setningarinnar. Boðskapurinn er að hennar sögn sjálfsmildi og að koma vel fram við náungann. Að fólk vandi sig og standi saman. Setningin hefur birst í verkum hennar í sex ár.

Það er erfitt að sjá hvernig fólk sem lætur gott af sér leiða með þessum hætti getur stuðað aðra. Eða setning með fallegum boðskap. En reynslan sýnir okkur, því miður, að það er til fólk sem getur fundið neikvæðni í nánast hverju sem er. Jafnvel því að hjálpa öðrum. Þannig voru forsvarskonur átaksins gagnrýndar fyrir að vera of einsleitar, að setningin gæfi til kynna að konur vissu ekki neitt og svo mætti lengi telja. Aðallega voru það konur sem gagnrýndu þær. Í raun er það svolítið íronískt í ljósi þess að átakið heitir Konur eru konum bestar.

Gott væri ef fleiri í samfélaginu létu verkin tala og gott af sér leiða. Það er auðvelt að tuða á internetinu eða setja ramma á prófílmynd á Facebook, en meira mál að sinna einhverjum góðgerðamálum eða sjálfboðastarfi í nærumhverfi sínu. Eða hreinlega að styrkja góð málefni. Ef allir myndu gera sitt besta eins og konurnar í ofangreindu átaki væri samfélagið okkar betra

Birtist í Viðskiptablaðinu 6.10.2022

Góð þjónusta umfram ódýra

Reykjavík er ríkari af viðburðum eins og Menningarnótt sem fram fór um helgina. Hátíðarhöldin fóru vel fram með minniháttar undantekningum. Borgin bauð frítt í strætó en mislas eftirspurnina. Það mátti búast við því að með mikilli umræðu um Borgarlínu væri fólk spennt að prófa almenningssamgöngur. En, borgarbúar horfðu uppá strætó sem stóð ekki við áætlanir, keyrði framhjá fólki sem beið án þess að stoppa og meira að segja voru dæmi um strætisvagna sem hleyptu fólki ekki út þegar það vildi.

Viðbrögð Strætó voru ekki til þess að auka traust fólks á almenningssamgöngum. Í stað þess að hlusta á tillögur borgarbúa um umbætur, leituðu þau afsakana og kenndu barnavögnum um. Strætó missti þar af gullnu tækifæri til að laða að sér fleiri notendur, hefði upplifunin verið jákvæð. Hvort ætli sé líklegra að fólkið velji almenningssamgöngur eða einkabílinn næst?

Borgaryfirvöld hafa verið með það á stefnuskrá sinni að lækka leikskólagjöld. Við vitum öll hvernig hefur gengið að bjóða upp á þessa ódýru þjónustu í Reykjavík síðustu árin. Börn eru innrituð í leikskóla sem eru ekki til og ef þeir eru yfir höfuð til er ekki til starfsfólk til að taka á móti börnunum. Foreldrar sitja heima, komast ekki til vinnu og börnin eru svikin um rétt sinn til að sækja leikskóla.

Að bjóða fólki frítt strætó á Menningarnótt er í sjálfu sér gott mál. Hins vegar hefðu einkaaðilar hefðu aldrei rennt blint í sjóinn með þessum hætti. Á menningarnótt sannaðist hið forkveðna enn og aftur, að góð þjónusta er mikilvægari en ókeypis þjónusta. Þetta vita þau sem eiga allt sitt undir að rekstur fyrirtækja þeirra gangi upp.

Birtist í Viðskiptablaðinu 25.8.2022

Báknið burt, einstaklinginn inn

Síðastliðið ár hefur enginn skortur verið á dæmum um yfirgang báknsins. Eitt dæmið er kæra ÁTVR á aðila út í bæ sem samkvæmt ÁTVR hefur brotið lög um verslun með áfengi á Íslandi. Héraðsdómur vísaði málinu frá, enda var stofnunin að taka sér vald sem hún hefur ekki.

Annað dæmi er þegar báknið braust inn á heimili fólks til að leita að refum sem þar gætu leynst í góðu yfirlæti. Matvælastofnun tókst að útvega sér leitarheimild og fékk til fylgis með sér lögreglumenn sem voru vonandi ekki dregnir frá öðrum og brýnni verkefnum lögreglunnar.

Báknið skilgreindi Dr. Football sem fjölmiðil og sektaði hann sem slíkan fyrir að hafa brotið ýmsar reglur. Báknið sakaði Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins um brot á samkeppnislögum þegar þessi hagsmunasamtök höfðu bent á að vöruverð myndi hækka í kjölfar heimsfaraldurs, uppsafnaðrar eftirspurnar, hækkunar á hrávöruverði og hækkuðum flutningskostnaði. Verð stjórnaðist nú af tali hagsmunasamtaka en ekki framboði og eftirspurn, hrávöruverði, launakostnaði og fleiru.

Matvælaráðherra hefur nýlega kynnt drög að breytingum á reglugerð um hvalveiðar þar sem lagt er til að dýravelferðarfulltrúi verði í áhöfn hvers hvalveiðiskips. Báknið vex með hverri reglugerð og veitir hinu opinbera meiri og meiri völd til að hamla.

Allt er þetta fyrir löngu komið úr böndunum. Reglunum fjölgar endalaust og þar með opinberum embættismönnum sem sjá um að framfylgja þeim, jafnvel á frumlegan hátt. Þar sem áður ríkti traust á að fólk færi að lögum þá er í staðinn komin sú sannfæring hins opinbera að fólk sé sekt um lögbrot þar til sakleysi er sannað. Snúum sem fyrst frá þeirri hugsun. Reglum þarf að fækka, báknið þarf að minnka, traustið þarf að aukast.

Birtist í Viðskiptablaðinu 14.7.2022

Íþróttahús í Laugardal

Þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþróttastarfi hefur ótvírætt forvarnargildi og að sama skapi stuðlar það að heilbrigðara líferni og betri lýðheilsu. Það hafa íslenskar rannsóknir sýnt fram á. En því miður er það svo í sumum hverfum borgarinnar að aðstaða til íþróttaiðkunar er lakari en í öðrum hverfum.

Í meirihlutasáttmála borgarstjórnar er talað um að „greina þurfi þörf fyrir aðstöðu fyrir börn og unglinga í Laugardal“. Það þarf enga sérfræðinga til að greina þessa þörf, það væri auðvelt að spyrja bara foreldra í hverfinu. Tveir grunnskólar í Laugardal eru án íþróttahúss og aðrir tveir eru með of lítil og óheppileg hús. Íþróttafélögin í Laugardal, Ármann og Þróttur, eiga ekkert hús fyrir boltagreinar innanhúss. Hjá Ármanni, fjölmennustu körfuboltadeild Reykjavíkur, æfa fjögurhundruð börn. Þau yngstu æfa í íþróttahúsum Langholts- og Laugarnesskóla, þau eru á stærð við einn badmintonvöll. Þessi börn spila mörg í fyrsta skipti á tvær körfur þegar þau taka þátt í mótum. Ármann getur ekki haldið mót til fjáröflunar eins og önnur félög í borginni vegna aðstöðuleysis. Skólaíþróttahúsunum er lokað í sumarbyrjun líkt og skólunum svo tímabilið hjá Ármanns­krökkum er styttra en hjá börnum í öðrum félögum. Brottfall er mikið þegar börnin vaxa upp úr þessari aðstöðu og þurfa þá að ferðast til æfinga utan hverfis.

Aðstöðuleysi Þróttar er líka alvarlegt en blakdeild Þróttar æfir á tíu stöðum á höfuðborgarsvæðinu og erfiðlega hefur gengið að halda úti starfi í handbolta. Einhver kann að spyrja af hverju Laugardalshöll sé ekki notuð. Barna- og unglingastarf þarf alltaf að víkja þar fyrir öðrum tekjumyndandi viðburðum, sem er í sjálfu sér eðlilegt, en sýnir að ómögulegt er að halda úti faglegu starfi þegar allt að helmingur æfingadaga í mánuði fellur niður.

Íþróttahús sem nýtist Þrótti, Ármanni og skólunum í hverfinu skoraði einna hæst í forgangsröðun íþróttamannvirkja í Reykjavík. Vinnuhópur allra hagaðila á að skila tillögum að uppbyggingu í Laugardal fyrir 1. desember. Það eru sjö mánuðir eftir af kjörtímabilinu og lítið áþreifanlegt hefur gerst í aðstöðuvanda Laugdælinga. Ungmenni í Laugardal þurfa alvöru aðstöðu, ekki fleiri vinnuhópa eða góðar hugmyndir á blaði.

Birtist í Fréttablaðinu 26.10.2021

...en með ólögum eyða

Nefnd um eftir­lit með lög­reglu telur vís­bendingar um að dagbókarfærsla lög­reglu um meint sótt­varna­brot í Ás­mundar­sal á Þor­láks­messu hafi verið efnis­lega röng og ekkert til­efni hafi verið til upp­lýsinga­gjafar af slíku tagi. Fram kemur í niðurstöðu nefndarinnar að ásetningur lögregluþjónanna hafi verið að skrifa æsilega dagbókarfærslu, sem fólk myndi lesa, sem átti sérstaklega að beinast að svokölluðum „Sjálfstæðis-framapoturum“ úr hópi kvenkyns sýningargesta.

Því fer fjarri að ásetningur lögreglu og efnislega röng tilkynning sé það alvarlegasta við málið. Í niðurstöðunni nefndarinnar kemur einnig fram að lögregla átti við sönnunargögn áður en þau voru afhent. Þar sem ummæli lögregluþjóna reyndust óheppileg var hljóðið afmáð. Fram kemur að margar tilraunir hafi þurft til að nefndin fengi ósvikin sönnunargögn í hendur.

Til hvers eru búkmyndavélar?

Háttsemi embættisins vekur upp ýmsar spurningar. Hve oft hefur því bragði verið beitt að breyta einfaldlega sönnunargögnum sem eru lögreglunni ekki þóknanleg? Við smá eftirgrennslan kemur í ljós að áður hefur verið kvartað yfir seinagangi við afhendingu gagna og að hljóðið vanti í upptökurnar. Búkmyndavélar lögregluþjóna eiga ekki eingöngu að vernda hagsmuni lögreglunnar sjálfrar, heldur einnig borgarana. Við þekkjum dæmi erlendis frá þar sem slíkar vélar hafa komið upp um gróf mannréttindabrot. Það er því grafalvarlegt að átt sé við gögnin áður en þau eru afhent.

Að standa undir traustinu

Ekki er langt síðan að almenn lögregla vopnvæddist, þegar komið var fyrir byssum í lögreglubílum, án þess að það samtal hafi verið átt við borgarana. Lögreglan hefur lýst sig andsnúna frumvarpi um afglæpavæðingu neysluskammta, sem kemur ekki á óvart því við vitum að lögreglan hefur farið frjálslega með líkamsleitarheimildir. Að auki hefur lögreglan lýst yfir ánægju með hugmyndir um banna notkun rafhlaupahjóla á helgarkvöldum og talað fyrir því að skerða opnunartíma veitinga- og skemmtistaða.

Lögreglan er mikilvæg stofnun, hún er hér til að þjóna landsmönnum og vernda þá. Lögreglan hefur einkarétt á valdbeitingu og þarf því að sýna hún er traustsins verð. Það er ekki gert með því að banna hluti sem fólk gerir sér til skemmtunar, segja ósatt í fréttatilkynningum eða eyða sönnunargögnum.

Birtist á Vísi 26.6.21

Hjólin snúast áfram

Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025 verður lögð fram í borgarstjórn í dag. Árið 2009, þegar fyrsta hjólreiðaáætlun Reykjavíkur var gerð, var hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum 2%. Tíu árum síðar var hlutdeildin 7%. Með því að setja okkur markmið, búa til áætlanir og framfylgja þeim með framkvæmdum getum við náð stórkostlegum árangri.

Fyrsta markmið nýrrar hjólreiðaáætlunar er að hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum verði a.m.k. 10% árið 2025. Það þýðir ekki að 10% íbúa eigi að fara allra sinna ferða á hjóli, heldur að fólk geti valið um að ferðast með þeim hætti sem hentar hverju sinni. Kannanir sýna að mun fleiri vilja hjóla en gera það í raun. Þess vegna þarf að gera enn betur í uppbyggingu innviða fyrir hjól, svo fólk hafi raunverulegt val um að velja hjólið, hvort sem það er reiðhjól eða hlaupahjól, þegar það hentar best.

Annað markmiðið er að bæta innviði og gera hjólreiðar sýnilegri. Aukning síðustu ára og reynsla erlendis sýnir að með bættum innviðum fjölgar þeim sem hjóla. Þegar fleiri hjóla, þá eykst öryggi þeirra. Við ætlum að setja fimm milljarða í uppbyggingu hjólainnviða á tímabilinu. Lengd sérstakra hjólastíga í dag í Reykjavík eru 32 km en við stefnum á að þeir verði 50 km árið 2025 og 100 km árið 2030.

Þriðja markmiðið er að bæta þjónustu við stíga. Vetraraðstæður geta verið erfiðar í Reykjavík og þess vegna þarf þjónusta við stígana að vera framúrskarandi og áreiðanleg. Auk þess þarf að bæta viðhald og þjónustu við stíga allt árið.

Fjórða markmiðið er hjólamenning. Fólk á að geta litið til hjólsins þegar kemur að því að velja sér fararmáta. Reykjavík stefnir á að verða hjólaborg á heimsmælikvarða því betri hjólaborg eykur lífsgæði allra borgarbúa. Hjólreiðar eru hagkvæmur, heilsusamlegur og skemmtilegur ferðamáti. Loftgæði verða betri, íbúar verða heilsuhraustari og tafir í bílaumferð verða minni. Hjólreiðar eru hamingjuríkasti ferðamátinn.

Gleðilegt hjól!

Birtist í Fréttablaðinu 15.6.21

Stelpur geta allt!

Haustið 2019 voru hjól­reiðar 7% af öllum ferðum borgarinnar. Karlar og strákar fóru 10% ferða sinna á hjóli en konur og stelpur einungis 4%. Þessi munur er til staðar á öllum aldurs­bilum. Drengir 6-12 ára fara 31% ferða á hjóli en stelpur 17%. Þessi munur sna­reykst svo í aldurs­hópnum 13-17 ára þar sem strákar fara 17% ferða á hjóli en stúlkur bara 2%! Þetta má sjá glögg­lega í borginni, það sjást oft stráka­hópar á hjólum að þvælast á milli staða en síður stelpu­hópar.

Þessi munur vakti at­hygli okkar í stýri­hóp um nýja hjól­reiða­á­ætlun Reykja­víkur. Við viljum sjá jafnari hlut­deild ferða milli kynja. Betri hjóla­borg eykur lífs­gæði allra borgar­búa. Loft­gæði verða betri, í­búar verða heilsu­hraustari og tafir í bíla­um­ferð verða minni. Frelsi til að ferðast Þegar börn læra að hjóla og þegar við sleppum af þeim takinu þegar þau byrja í skóla stækkar heimurinn þeirra marg­falt. Á hjóli komast þau lengra og hraðar yfir en á fæti og það verður minni þörf fyrir skutl. Börn sem hjóla eða ganga til skóla ein­beita sér betur og sýna að meðal­tali betri árangur í námi sínu. Fyrir utan hvað er gaman að hjóla, láta vindinn leika um and­litið og fá blóðið smá á hreyfingu. Því­líkt frelsi!

Hvað veldur því að stelpur hjóla síður en strákar? Konur 25-44 ára eru helmingi ó­lík­legri til að hjóla en karlar. Stelpur hafa því síður fyrir­mynd í mæðrum sínum. Höfða hjól­reiðar síður til stelpna? Eru for­eldrar síður að hvetja þær til hjól­reiða? Eru hjól ætluð stelpum ekki eins þægi­leg og góð og hjól sem eru ætluð strákum? Eru þau þyngri eða með færri gíra? Hafa þær á­hyggjur af því að hjálmurinn rugli hárinu á þeim?

Raf­hjólum fjölgar hratt og þá skipta brekkur og rok síður máli við val á sam­göngu­máta. Einnig hefur notkun á raf­hlaupa­hjólum aukist. Gætu raf­hjól aukið á­huga kvenna á hjól­reiðum? Þetta eru spurningar sem við ættum öll að spyrja okkur. Ég hvet for­eldra til að efla stelpurnar sínar til hjól­reiða, það er ekkert sem segir að stelpur geti ekki hjólað, því stelpur geta allt!

Birtist í Fréttablaðinu 19.5.21

Tími er peningar

Fólk sem búið hefur í er­lendum borgum þekkir oft vel kosti skil­virkra al­mennings­sam­gangna og góðra inn­viða til hjól­reiða. Slíkt minnkar um­ferðar­tafir, er hag­kvæm nýting á skatt­fé, stuðlar að heilsu­sam­legra um­hverfi og sparar út­gjöld heimilanna.

Sam­kvæmt ný­legri könnun vilja einungis 35% íbúa á höfuð­borgar­svæðinu ferðast til vinnu á einka­bíl. Hin 65% vilja nýta aðra kosti. Sam­kvæmt sömu könnun er þessu þó öfugt farið, um 63% ferðast til vinnu á einka­bíl. Þetta sýnir skýran vilja til breyttra ferða­venja og ætti að hvetja stjórn­mála­menn til að efla aðra kosti. Þannig munu í­búar hafa raun­veru­legt frelsi til að velja ferða­máta.

Frá því fyrsta hjól­reiða­á­ætlun Reykja­víkur var kynnt árið 2010 hefur hlutur hjólandi í ferðum borgarinnar aukist jafnt og þétt, úr 2% allra ferða í 7%. Hjól­reiða­á­ætlun til ársins 2025 er nú í vinnslu og miðar að því að fjölga þeim sem hjóla enn frekar með metnaðar­fullum hug­myndum. Hjól­reiðar eru hag­kvæmur, sveigjan­legur, heilsu­sam­legur og skemmti­legur ferða­máti.

Góðar al­mennings­sam­göngur þurfa að vera á­reiðan­legar, tíðar, hrað­virkar, að­gengi­legar og þægi­legar. Borgar­línan hefur þetta allt saman. Tíðnin verður meiri en hjá Strætó, að­gengi­leikinn og þægindi nást með betri bið­stöðvum, á­reiðan­leikinn og hraðinn með sér­ak­reinum. Sér­ak­reinar eru lykil­at­riði til að Borgar­línan virki fyrir not­endur, það má því ekki gefa af­slátt af þeim.

Kostnaður við Borgar­línuna er á­ætlaður um 70 milljarðar. Fjár­hæðin er há, en gott er að skoða hana í sam­hengi. Á­ætlað er að Borgar­línan verði alls um 58 kíló­metrar og þegar fyrsti á­fangi verði til­búinn muni um 50 þúsund far­þegar nýta sér hana dag­lega. Til saman­burðar má benda á að Dýra­fjarðar­göng, nýjustu jarð­göng Ís­lendinga, eru 5,6 kíló­metrar og er á­ætlað að þau flytji um 200 bíla á dag. Þau kostuðu um níu milljarða. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr sam­göngu­bótum á lands­byggðinni, nema síður sé. En því verður ekki neitað að Borgar­lína er hag­kvæm fjár­festing í saman­burði við margar aðrar inn­viða­fjár­festingar hér­lendis.

Í­búum á höfuð­borgar­svæðinu fjölgar ört. Haldist ferða­venjur ó­breyttar munu um­ferðar­tafir aukast veru­lega, jafn­vel þó fjár­fest verði í inn­viðum fyrir bíla. Kostnaðurinn er marg­vís­legur, elds­neytis­kostnaður, mengun og síðast en ekki síst þjóð­hags­legt tap vegna þess tíma sem fer í súginn hjá borgar­búum. Marg­vís­legur dulinn kostnaður er fyrir einka­aðila, svo sem kostnaður við bíla­hús og bíla­stæði við heimili og vinnu­staði.

Lausnin felst í fjöl­breyttum kostum. Með bættum stofn­vegum, betri um­ferðar­ljósa­stýringu, góðum hjóla­inn­viðum og þróun skil­virkra al­mennings­sam­gangna ættu flest að geta komist ferða sinna fljótt og vel á hag­kvæman og ein­faldan hátt. Þannig fáum við öll borg sem er gott að búa í.

Birtist í Fréttablaðinu 25.3.21

Skyldur og gæluverkefni

Íslensk sveitarfélög þurfa samkvæmt lögum að rækja margvíslegar skyldur og hafa til þess ýmsa tekjustofna. Til viðbótar við lögbundin verkefni hafa sveitarfélögin heimild til að sinna ýmsu öðru. Í tilviki Reykjavíkurborgar er það svo sannarlega raunin.

Innan samstæðu borgarinnar, svokallaðs B-hluta, er að finna fyrirtæki á borð við Faxaflóahafnir, Félagsbústaði, Malbikunarstöðina Höfða hf., Orkuveitu Reykjavíkur, Strætó bs. og Sorpu bs. Innan Orkuveitu Reykjavíkur er síðan fjöldi dótturfélaga, þar á meðan Gagnaveita Reykjavíkur. Yfirlýst hlutverk hennar er „að veita íslenskum heimilum og fyrirtækjum aðgengi að hágæða þjónustu á opnu aðgangsneti“. Þetta er í daglegu tali kallað nettenging.

Hvergi er fjallað um beinan rekstur netþjónustu í lögum um skyldur sveitarfélaga. Það er því ekki hlutverk borgarinnar, né fyrirtækja í hennar eigu, að veita þá þjónustu. Ekki frekar en að borgin eigi að sjá borgurunum fyrir matskeið af lýsi á morgnana, eins hollt og það er nú samt. Borgin ætti því að huga að sölu Gagnaveitunnar við fyrsta tækifæri.

Samhliða ætti borgin að losa sig við eignahlut sinn í Sorpu. Sorphirða er víða boðin út á Íslandi og sérhæfð fyrirtæki bjóða þá þjónustu á samkeppnismarkaði, nema auðvitað þar sem sveitarfélagið heldur uppi einokunarstarfsemi. Sorpa hefur reynst eitt risastórt lóð um háls hins syndandi skattgreiðenda og gæti hvenær sem er orðið óbærilega þungt.

Almennt má segja að því minni rekstur sem er á könnu hins opinbera, því minni líkur eru á því að skatt- og útsvarsgreiðendur sitji uppi með risastóra reikninga eftir óráðsíu og mistök. Það er því áríðandi að losna við rekstur eins og Gagnaveituna og Sorpu úr miðstýringu ráðhússins. Fólk mun eftir sem áður geta keypt sér aðgang að „opnu aðgangsneti“ og losnað við sorpið um leið og það tekur inn sitt eigið lýsi.

Birtist í Morgunblaðinu 11.12.20

Spriklandi frísk börn

Rannsóknir sýna að skipulagt íþróttastarf hefur jákvæð áhrif á líðan barna og mikið forvarnargildi. Börnum sem eru virk í skipulögðu íþróttastarfi líður betur, vinna betur í hóp og eru ólíklegri til að neyta vímuefna. Niðurstöður úr Ánægjuvoginni 2020 sýna að tæp 90% barna eru ánægð með þjálfarann sinn og íþróttafélagið sitt og finnst gaman á æfingu. Íþróttastarf barna á Íslandi þykir svo vel heppnað að tekið hefur verið eftir.

Börn fengu ekki að stunda skipulagt íþróttastarf í sjö vikur á vorönn og sex vikur á haustönn vegna faraldursins. Æfingabann barna og ungmenna eldri en 15 ára stendur enn yfir og er ófyrirséð hversu lengi það mun standa. Fyrir utan öll jákvæðu áhrifin sem skipulagt íþróttastarf hefur á börn, þá eru heilbrigt líferni og hreyfing talin draga úr áhættuþáttum COVID-19.

Íþróttafélögin hafa mörg staðið sig mjög vel með fjaræfingum og hvatningu til iðkenda. Það kemur þó aldrei í staðinn fyrir samskiptin og handleiðsluna sem fylgir skipulögðu íþróttastarfi. Þegar er farið að bera á brottfalli og það þarf ekki að fjölyrða um hversu slæmar afleiðingar það mun hafa fyrir framtíðina. Sérstaklega fyrir þau börn sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttum og þau sem eru á viðkvæmasta aldrinum með tilliti til brottfalls.

Faraldurinn er ekki að hverfa úr okkar daglega lífi á næstunni. Það er því mikilvægt að geta brugðist hratt við þegar upp koma tímabil þar sem takmarka þarf íþróttaiðkun barna. Ástæðan fyrir æfingabanni barna í október var að ekki mætti blanda saman börnum milli skóla. Það þarf að finna leiðir svo skólar og íþróttafélög geti unnið saman til að halda þessu mikilvæga starfi gangandi. Lausnin þarf ekki að vera sú sama fyrir hvert íþróttafélag eða skóla, en það þarf að opna á þetta samtal og samstarf. Íþróttastarf barna er nefnilega eitt mikilvægasta lýðheilsumálið.

Birtist í Fréttablaðinu 1.12.2020

Skuldahali Reykjavíkur

Haustið 2005 skrifaði Magnús Þór Gylfason grein í Þjóðmál þar sem meðal annars var tæpt á rekstri Reykjavíkurborgar. Á þeim tíma hafði R-listinn setið við stjórnvölinn frá árinu 1994 undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Skuldirnar höfðu vaxið geigvænlega, úr fjórum milljörðum í lok árs 1993 í 65 milljarða í árslok 2005.

Af hverju að rifja þetta upp núna? Árið 2002 gekk Dagur B. Eggertsson til liðs við R-listann. Úr R-listanum varð síðar til Samfylkingin, sem hefur stjórnað borginni samfleytt í 10 ár, síðan 2010. Dagur varð borgarstjóri árið 2014 og gegnir enn því embætti. Skuldasöfnunin heldur áfram. Þannig má segja að R-listinn og skilgetið afkvæmi hans hafi safnað skuldum í Reykjavík linnulítið í rúman aldarfjórðung.

Skuldir víðast að lækka                                                 

Á síðustu árum nýttu landsmenn, fyrirtæki, mörg sveitarfélög og síðast en ekki síst ríkissjóður hagvaxtartímabilið vel og unnu ötullega að lækkun skulda og sparnaði. Lækkun sem gerir til dæmis ríkissjóði kleift að takast á við áhrif heimsfaraldurs sem sett hefur allt þjóðfélagið úr skorðum með samdrætti og vaxandi atvinnuleysi. Skuldir ríkisins hafa lækkað um 588 milljarða, eða 39%, frá því að Sjálfstæðisflokkurinn settist í ríkisstjórn árið 2013.

Annað er upp á teningunum hjá Reykjavíkurborg, þar sem skuldum hefur verið safnað á fordæmalitlum góðæristímum. Frá árinu 2010 hafa skuldir A-hluta borgarsjóðs, það er skuldir borgarinnar án dótturfyrirtækja hennar, aukist um 82% á föstu verðlagi þrátt fyrir að skatttekjur hafi aukist um 54%. Heildarskuldir í árslok 2019 voru 112 milljarðar en skatttekjur ársins voru 99 milljarðar. Þannig voru skuldir 13% hærri en tekjur ársins.

2020.03-Katrín-Atla-Heildarskuldir-A-hluta-borgarsjóðs.jpg

Séu lífeyrisskuldbindingar teknar til hliðar hafa skuldirnar aukist um 49% að raunvirði frá 2010 til 2019. Þetta gerist á einu lengsta góðæristímabili í hagsögu Íslands, þar sem hagvöxtur var jákvæður níu ár í röð. Flestir skattar og gjöld eru og hafa verið í leyfðu hámarki.

Skuldir á hvern Reykvíking hafa hækkað úr 545 þúsund krónum árið 2010 í 915 þúsund krónur í lok síðasta árs, á föstu verðlagi, eða úr um 2,2 milljónum króna í tæpar 3,7 milljónir króna á fjögurra manna fjölskyldu, Þetta er tæplega 68% hækkun skulda á hvern íbúa, sem skattar þeirra þurfa að standa undir, en þeir hafa á sama tíma hækkað um 42% á hvern íbúa.

2020.03-Katrín-Atla-Reykjavíkurborg-skuldir-á-íbúa.jpg

Þá nýtir Reykjavíkurborg sér heimild til að undanskilja Orkuveitu Reykjavíkur, sem er 94% í eigu borgarinnar, við útreikning á skuldahlutfalli. Spyrja má hvort það gefi rétta mynd af skuldastöðu borgarinnar.

Fram undan eru erfiðir tímar hjá borgarsjóði vegna tekjufalls sem vart er hægt að mæta með öðru en hagræðingu. Sú hagræðing verður mun sársaukafyllri en hún hefði verið ef aðhalds hefði verið gætt síðustu ár. Grunnþjónustu borgarinnar stafar ógn af óstjórn borgarinnar. Það þarf ekki að fjölyrða um að ekkert svigrúm er hjá fólki eða fyrirtækjum í borginni til að greiða hærri skatta.

Viðreisn og skuldasöfnunin

Viðreisn gekk til samstarfs við meirihlutann í borginni um mitt ár 2018. Ekki er að sjá mikla breytingu á skuldasöfnun borgarinnar eftir það. Flokkurinn lofaði fyrir kosningar að greiða niður skuldir á góðæristímum og í sáttmála meirihlutans stendur: „Borgin skal rekin með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Skuldir skulu greiddar niður meðan efnahagsástandið er gott.“ Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að Viðreisn kom inn í samstarfið hafa skuldir aukist um 16 milljarða. Það er um 650 milljóna króna skuldaaukning á mánuði frá því að Viðreisn komst til valda.

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, orðaði þetta vel í grein sinni um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018-2022 sem hann skrifaði árið 2018 á vidreisn.is:

 „Á kosningaárinu 2022 verða fjárfestingar sem sagt í lágmarki og aðhald mikið. Einmitt. Við eigum líka að trúa því að þrátt fyrir að nú sé Reykjavík að auka skuldir sínar í bullandi góðæri þá munu stjórnmálamenn á kosningaárinu 2022 keppast við að slá met og uppgreiðslu skulda. […] Allt þetta er sama marki brennt og dansar á mörkum ofurbjartsýni og ótrúverðugleika. Hér er treyst á að stjórnmálamenn í framtíðinni, sem verða að öllum líkindum í mun verri aðstöðu til að greiða niður skuldir, muni af einhverjum ástæðum keppast við að gera það. Kosningaloforð Dags liggja þá fyrir. Í stað þess að skapa svigrúm til fjárfestinga í framtíðinni ætlar borgarstjórinn að fjárfesta eins og aldrei fyrr á toppi hagsveiflunnar og skera svo harkalega niður eftir því sem um hægist og þörf fyrir slíkar fjárfestingar eykst.“

Á aðeins tveimur árum frá því að áætlunin sem Pawel nefnir var gerð tók þessi spá töluverðum breytingum. Í fjárhagsáætlun 2020-2024 var áætlað að hreinar skuldir árið 2022 yrðu 54 milljarðar, eða rúmlega tvisvar sinnum hærri upphæð en tveimur árum áður.

2020.03-Katrín-Atla-Hreinar-skuldir-Reykjavíkur-samkvæmt-fjárhagsáætlun.jpg

Heimild: Fjárhagsáætlun Reykjavíkur

Pawel hitti því naglann á höfuðið. Nú hefur hægst um og þörfin fyrir fjárfestingar aukist. Draga mun úr tekjum enda tekjustofnar sveitarfélaga allnokkuð háðir hagsveiflu. Því blasir við að borgin mun þurfa að skera harkalega niður á næstu árum.

Borgin staðfestir áhyggjur

Á sama tíma og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, sagði rekstur borgarinnar blómlegan og kannaðist ekki við beiðni um neyðaraðstoð borgarinnar til ríkisins var eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs, aðgerðapakka tvö, send fyrir hönd Reykjavíkurborgar, undirrituð af sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar:

„Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára. Þessa ósjálfbærni er ekki hægt að leysa með hækkun leyfilegrar skattlagningar eða þjónustugjalda eða með stórfelldum niðurskurði í útgjöldum borgarinnar sem varða að langmestu leyti leik- og grunnskóla og velferðarþjónustu. Hefðbundnar aðferðir eru ekki í boði. Þá er ekki hægt að leysa þetta með stórfelldum lánveitingum þar sem veltufé frá rekstri mun ekki til margra ára framundan standa undir afborgunum.

Þetta eru meginrökin fyrir því að ríkið komi með beinan óendurkræfan stuðning til sveitarfélaganna sem tryggir að þau geti staðið undir þjónustuskyldum sínum við íbúana og heimilin og staðið með atvinnulífinu a.m.k. að því marki sem alþingi hefur samþykkt með lögum. Ef bein óendurkræf framlög ríkisins vegna ársins 2020 myndu nema 50 milljörðum fyrir sveitarfélögin og viðbótarframlög vegna 2021 kæmu síðar þegar greiningar liggja fyrir, sýnir ofangreind fjármálagreining að tryggja þarf jafnframt aðgengi sveitarfélaganna að lánum fyrir a.m.k. jafnháar fjárhæðir hjá Seðlabanka Íslands á hagkvæmustu kjörum ríkisins með 5-7 afborgunarlaus ár í upphafi lánstímans.“

Íbúar Reykjavíkur árið 2020 eru tæp 56% af íbúum höfuðborgarsvæðisins, svo gera má ráð fyrir að hlutdeild Reykjavíkurborgar í ofangreindri neyðaraðstoð yrði um 56 milljarðar af þeim 100 milljörðum sem óskað er eftir strax.

Vandanum velt á fólk og fyrirtæki

Þegar öllu er á botninn hvolft hefur fjármálastefna meirihlutans leitt borgina í algjörar ógöngur, þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð. Þegar öll sund eru að lokast er svo brugðið á það ráð að leita til ríkisins til að leysa vandamálið. En það má svo sem líta á það sem jákvætt, þar sem fyrsta skrefið í átt að bata er að viðurkenna vandamálið.

„Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur, það þarf atorku og ráðdeild og framsýni og þollyndi,“ sagði Jón Sigurðsson í miðri sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Það má svo sannarlega yfirfæra þessi orð hans á Reykjavíkurborg.

Upplýsingar um mannfjölda og VNV eru fengnar frá Hagstofu Íslands. Upplýsingar um tekjur og skuldir Reykjavíkur eru fengnar úr fjárhagsáætlunum, árs- og árshlutareikningum Reykjavíkur. Upplýsingar um skuldastöðu ríkisins eru fengnar úr frumvarpi til fjárlaga fyrir 2021.

Birtist í hausthefti Þjóðmála 2020

Með vindinn í hárinu

Árið 2010 samþykkti borgarstjórn fyrstu hjólreiðaáætlun Reykjavíkur. Yfirskrift hennar var Hjólaborgin Reykjavík. Síðan þá hefur hlutdeild hjólreiða sem ferðamáta í borginni aukist jafnt og þétt eftir því sem innviðir hafa byggst upp og áhugi aukist á hreyfingu, útivist og heilbrigðum lífsstíl. Samkvæmt ferðavenjukönnun árið 2019 er hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum í Reykjavík 7% en markmið hjólareiðaáætlunar sem rennur sitt skeið á enda í lok þessa árs var 6,5%.

Nú stendur yfir vinna við hjólreiðaáætlun til 2025 sem ég stýri ásamt fulltrúum úr meirihlutanum. Það er kominn tími til að taka hjólreiðar í borginni í næsta gír og því mikil og spennandi vinna fram undan. Hópurinn er sammála um að öryggi skuli vera rauði þráðurinn í nýrri áætlun, svo öllum líði eins og þau geti ferðast örugglega á milli staða á hjóli. Hjólreiðar eiga að vera fyrir alls konar fólk og á alls konar hjólum.

Á tímum COVID hafa hjólreiðar aukist í borgum Evrópu. Í Reykjavík var ásóknin slík í vor að hjólabúðir voru margar hverjar tómar. Ríkisstjórnir heims keppast við að fjárfesta í grænni og heilsusamlegri ferðamátum, þau áhrif má sjá hér í sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Með nýrri tækni aukast tækifæri til hjólreiða. Rafhjólum fjölgar hratt og þá skipta brekkur og rok síður máli við val á samgöngumáta.

Samkvæmt nýlegri könnun Maskínu vilja 27% höfuðborgarbúa helst hjóla til vinnu en 10% gera það samkvæmt sömu könnun. Það er okkar hlutverk í stýrihópnum um nýja hjólreiðaáætlun að komast að því hvað vantar upp á til að fólk hjóli og bæta úr því. Fólk þarf að hafa frelsi til að velja þann ferðamáta sem það kýs helst.

Í mínum huga er lúxus að hjóla, fá tíma til að hugsa málin, hlaða rafhlöðuna, fá blóðið á hreyfingu og roða í kinnarnar. Engin bið í umferð og ég legg við dyrnar á áfangastað án þess að leita að bílastæði. Svo er líka bara svo skemmtilegt að hjóla.

Birtist í Fréttablaðinu 10.11.2020

Plástur á sárið

Við siglum nú inn í áttunda mánuð fordæmalausra tíma.

Undanfarið hefur ýmislegt vanist sem virtist fjarstæðukennt í ársbyrjun. Knúsleysi, ferðatakmarkanir og þríeykið á skjánum, svo fátt eitt sé nefnt. Annað venst þó ekki jafn vel, eins og tekjuhrun og óvissa þeirra sem byggja lífsviðurværi sitt á heimsóknum ferðamanna og samkomum fólks.

Undanfarin ár hefur sprottið upp fjölbreytt flóra veitingahúsa um allt land, ekki síst í miðborg Reykjavíkur, með fjölda starfa og jákvæðum áhrifum á mannlífið. Íslensk handverksbrugghús eru annar ungur geiri, en þau eru nú á þriðja tug á landinu og tryggja um 200 manns störf í sinni heimabyggð, greiða skatta og draga gesti í sín sveitarfélög. Starfsfólk og eigendur þessara fyrirtækja horfa nú fram á allt annan veruleika en á sama tíma fyrir ári.

Í mars skoraði veitingafólk á dómsmálaráðherra að leggja fram frumvarp um jafnræði í netverslun með áfengi. Staðir sem reiða sig nú að mestu á heimsendingar gætu þannig sent vel valin gæðavín eða bjór heim með matnum. Þannig mætti jafnvel auka veltuna nóg til að halda velli í gegnum stærsta skaflinn.

Í haust tóku handverksbrugghús undir og skoruðu samhliða á ráðherra að tryggja rétt smáframleiðenda til sölu á framleiðslustað. Brugghúsin höfðu að miklu leyti reitt sig á heimsóknir ferðamanna, enda fá vörur þeirra lítið pláss í ríkisbúðinni. Með breytingunni mætti því verja afkomu fjölda frumkvöðlafyrirtækja og starfsfólks þeirra, oft í brothættum byggðum úti á landi.

Ráðherra svaraði kallinu í lok september, en í samráðsgátt eru nú frumvarpsdrög um jafnræði í áfengisverslun. Málið er mikilvægt, enda núverandi ástand óviðunandi.

Í dag geta Íslendingar nefnilega keypt áfengi í netverslun án takmarkana, líkt og á öllu EES-svæðinu, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins. Eina skilyrðið er að netverslunin sé erlend, enda íslensk netverslun með áfenga drykki bönnuð með lögum. Ef íslensk smábrugghús vilja selja Íslendingum vörur sínar löglega gegnum netið þarf því að senda þær með flugvél eða skipi til útlanda, þaðan sem þær eru svo sendar strax aftur til Íslands gegnum erlenda netverslun.

Rökin fyrir þessu fyrirkomulagi eru lýðheilsusjónarmið. Afleiðingarnar eru hins vegar augljósar. Aukið kolefnisspor og tekjutap íslenskra framleiðenda, auk skekktrar samskeppnisstöðu við erlend fyrirtæki. Líklega hefur aldrei verið mikilvægara en nú að styðja við nýsköpun og tryggja frjóan jarðveg fyrir lítil fyrirtæki. Frumvarp ráðherra gæti hleypt lífi í mörg fyrirtæki og tryggt störf.

Næsta rökrétta skref væri svo auðvitað að hleypa áfenginu í hillur kaupmannsins á horninu og styrkja stöðu hans gagnvart stóru risunum, sem deila bílastæði með útibúi ÁTVR.

Birtist á Vísi 9.10.2020